Mjólkursamsalan tapaði 330 milljónum króna á árið 2015. Tapið er tilkomið vegna þess að framleiðsla umfram markaðsþarfir innanlands var sjö til átta milljón lítrar. Þ.e. framleiðendurnir, bændur, framleiddu meiri mjólk en nauðsynlegt var og Mjólkursamsalan þurfti að kaupa hana af þeim. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Erlend starfsemi Mjólkursamsölunnar, sem felst að mestu í hagnaði af einkaleyfum og framleiðslu á skyri erlendis, var 400 milljónir króna.
Raunar er sala á íslensku skyri í Bretlandi, framleiddu af Mjólkursamsölunni, þegar orðin þrefalt meiri en kaupendur vörunnar reiknuðu með fyrirfram. Í febrúar hófst sala á íslensku skyri í um 200 verslunum Waitrose-verslanakeðjunar þar í landi og reiknuðu stjórnendur keðjunar með að selja um 4.000 dósir á viku. Niðurstaðan hefur hins vegar verið um 12.000 dósir á viku. Salan á skyri hefur einnig vaxið mikið á öðrum erlendum mörkuðum, sérstaklega í Finnlandi og Sviss.
Í Morgunblaðinu er haft eftir Agli Sigurðsson, stjórnarformanni Mjólkursamsölunnar, að markaðsstarf mjólkurrisans Arla á skyri á Bretlandsmarkaði hafi hjálpað mjög til, en að íslenska skyrið sé einfaldlega miklu betra. Vísbendingar séu um að erlend starfsemi Mjólkursamsölunnar skili enn meiri hagnaði á næsta ári.
Ekki skrásett vörumerki í Bretlandi
Sænski mjólkurrisinn Arla hefur markaðssett eigin framleiðslu á skyri víða í Evrópu undanfatið ár. Í þeirri herferð hefur verið lögð mikil áhersla á að sýna fram á íslenskan uppruna skyrsins og auglýsingarnar hafa innihaldið mikið magn myndefnis frá Íslandi.
Skyr er skrásett vörumerki í Finnlandi og Noregi í eigu MS og samstarfsaðila hennar. Í október var greint frá því að.Mjólkursamsalan hefði fengið úrskurðað lögbann á sölu Arla á skyri í Finnlandi. Arla varð að fjarlægja allt skyr úr verslunum þar í landi. Skyr Arla er framleitt í Þýskalandi.Auk þess var lögð á 500 þúsund evra sekt á félagið.
Skyr er einnig skráð vörumerki Mjólkursamsölunnar í Noregi en ekki fleiri löndum Evrópu. Skyr frá Arla var því áfram fáanlegt í Bretlandi, Hollandi, Belgíu og Danmörku, án þess að MS geti óskað eftir lögbanni.