Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að Árni Sigfússon hafi verið vanhæfur til að veita styrki úr Orkusjóði til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í fyrrahaust vegna vensla við forstjóra miðstöðvarinnar, sem er bróðir hans. Hann telur enn fremur að úthlutanir úr Orkusjóði í fyrrahaust hafi þar af leiðandi ekki verið í samræmi við lög. Þetta kemur fram í áliti Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, dagsettu 2. mars síðastliðinn.
Í álitinu segir: „Umboðsmaður tók fram að hæfisreglur stjórnsýslulaga ættu við um hæfi nefndarmanna ráðgjafarnefndar Orkusjóðs þegar nefndin gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði. Þar sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði sótt um styrk úr sjóðnum og fyrirsvarsmaður hennar væri bróðir formanns ráðgjafarnefndarinnar væri formaðurinn tengdur fyrirsvarsmanni aðila málsins í skilningi reglnanna og nefndarmaður í þeirri stöðu teldist vanhæfur. Umboðsmaður féllst ekki á þær skýringar ráðuneytisins að þáttur nefndarformannsins hefði verið lítilfjörlegur í merkingu laganna og ylli þar með ekki vanhæfi eða félli undir undantekningar frá hæfisreglunum að öðru leyti. Niðurstaða umboðsmanns var því sú að formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins og að hann hefði ekki mátt taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Þar sem fyrir lá að hann tók þátt í undirbúningi tillagnanna og sat fund þar sem þær voru afgreiddar taldi umboðsmaður að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við lög.“
Umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum til iðnaðar- og viðskiptaráðueytisins að það hafi þau sjónarmið sem rakin séu í áliti hans framvegis í huga í störfum sínum.. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að skera úr um hvort annmarkar á málsmeðferð í máli Valorku, sem kvartaði til umboðsmanns vegna málsins, leiddu til bótaskyldu af hálfu ríkisins.
Ragnheiður Elín skipaði nefndina
Orkusjóður er í eigu ríkisins og er hlutverk hans að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Yfirumsjón og ábyrgð með sjóðnum er hjá iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Í desember 2014 samþykkti Alþingi að gera breytingar á lögum um Orkusjóð. Í þeim breytingum fólst meðal annars að Orkuráð var lagt niður en í stað þess á iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipta þriggja manna ráðgjafanefnd til fjögurra ára sem hefur það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.
Lagabreytingin tók gildi 1. janúar 2015 og í byrjun þess árs skipaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þrjá einstaklinga í ráðgjafanefndina. Þeir eru Árni Sigfússon, Franz Viðar Árnason og Halla Hrund Logadóttir.
Árni var auk þess skipaður formaður nefndarinnar.
Árni sagði umfjöllun vera „ljótan leik“
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að umboðsmaður Alþingis væri með kvörtun fyrirtækisins Valorku vegna styrkveitingar Orkusjóðs til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í fyrrahaust til meðhöndlunar. Valorka sendi upphaflega kvörtun til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins vegna styrkveitingarinnar þann 24. september 2015 og í framhaldinu sendi fyrirtækið kvörtun til umboðsmanns Alþingis.
Fréttablaðið greindi frá því í oktober 2015 að miðstöðin hefði fengið fjórðung þeirra styrkja sem Orkusjóður hafði nýverið úthlutað til alls ellefu verkefna í fyrra haust. Í umfjöllun blaðsins kom fram að formaður nefndarinnar sem velur hverjir fá styrki, Árni Sigfússon, er bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Þorsteins Inga Sigfússonar. Árni vék ekki sæti þegar fjallað var um styrkveitinguna. Árni kallaði umfjöllun Fréttablaðsins „ljótan leik“ í samtali við Stundina. Hann hafnaði því að eitthvað væri athugavert við úthlutunina, enda væri hún til ríkisstofnunar, ekki persónulega til bróður hans.
Valdimar Össurarson, framkvæmdastjóri Valorku, sem sótti einnig um styrk til Orkusjóðs en fékk ekki, taldi styrkveitinguna ólögmæta eins og að henni var staðið. Ástæðan væri sú að Árni og Þorsteinn Ingi væru bræður og þar með væri Árni vanhæfur til að veita styrk til Nýsköpunarmiðstöðvar. Slík veiting stangist á við 2. kafla stjórnsýslulaga og hljóti því að dæmast ómerk, að mati Valdimars.
Í 2. kafla stjórnsýslulaga segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann „er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar“ eða ef hann „tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti“. Auk þess teljast nefndarmenn vanhæfir ef „að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu“.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið svaraði erindi Valorku með bréfi sem sent var til fyrirtækisins 14. október 2015. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sendi Valorka í framhaldinu kvörtun til umboðsmanns Alþingis sem sendi í kjölfarið bréf til ráðuneytisins með nokkrum spurningum um málið. Bréf umboðsmanns var sent 3. nóvember 2015 og því svarað þann 10. desember síðastliðinn.
Hann hefur nú komist að niðurstöðu og birti álit sitt í síðustu viku.
Afgerandi niðurstaða
Í áliti sínu segir umboðsmaður að hæfisreglur stjórnsýslulaga ættu við um hæfi nefndarmanna ráðgjafarnefndar Orkusjóðs þegar hún gerði tillögur til iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Árni væri því vanhæfur til að veita styrki til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands vegna tengsla sinna við forstjóra hennar. Hann féllst ekki á skýringar ráðuneytis í málinu um að þáttur Árna hefði verið lítilfjörlegur í merkingu laganna og ylli þar með ekki vanhæfi. „Niðurstaða umboðsmanns var því sú að formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins og að hann hefði ekki mátt taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Þar sem fyrir lá að hann tók þátt í undirbúningi tillagnanna og sat fund þar sem þær voru afgreiddar taldi umboðsmaður að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við lög.“
Umboðsmaður Alþingis fjallaði einnig um tilkynningu sem
birt var á vefsíðu ráðuneytisins
vegna málsins þar sem upplýst var um opinbera styrki til Valorku án þess að birtar væru upplýsingar um
sambærilegar styrkveitingar til annarra aðila sem störfuðu að verkefnum á sama
sviði. Í áliti umboðsmanns segir: „Umboðsmaður fékk ekki séð að tilkynningin
hefði verið í nægjanlegu samhengi við frétt Fréttablaðsins um vensl formanns
ráðgjafarnefndarinnar og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar sem átti að vera
tilefni hennar og aðra gagnrýni fyrirsvarsmanns A ehf. sem þar kom fram. Hann
taldi því að ráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að fréttin, og/eða fyrirspurn
Fréttablaðsins til ráðuneytisins af því tilefni, hefði veitt ráðuneytinu
réttmætt tilefni til að hafa frumkvæði að því að birta umræddar upplýsingar með
þeim hætti sem gert var. Efni tilkynningarinnar hefði að þessu leyti ekki verið
í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.
Umboðsmaður beindi þeim
tilmælum til ráðuneytisins að það hefði þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu
framvegis í huga í störfum sínum. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni
dómstóla að skera úr um hvort annmarkar á málsmeðferð í máli A ehf. leiddu til
bótaskyldu af hálfu ríkisins, teldi félagið tilefni til slíks.“