Myglusvepp er að finna í byggingarefnum í
höfuðstöðvum Íslandsbanka á Kirkjusandi. Að undanförnu hafa staðið yfir
ítarlegar rannsóknir á byggingarefnunum og nú er beðið eftir niðurstöðum úr
þeim. Þetta kemur fram í svari Eddu Hermannsdóttur, samskiptastjóra Íslandsbanka,
við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Hún segir að til að bæta loftgæði sem mest hafi viðamikið verkefni sem snúi að hreinsun loftræsiskerfis og alþrif í vinnurýma verið sett í gang og sé langt komið. Starfsmönnum hafi verið boðið upp á heilsufarsskimun og þegar hafi tæplega 300 manns farið í slíka skimun, en 400 manns starfa á Kirkjusandi. Þá hefur sérstakur fræðslufundur verið haldinn fyrir starfsfólk. „Það er stjórnendum bankans mikilvægt að starfsmenn búi við heilsusamlegt vinnuumhverfi og er lögð mikil áhersla á að halda starfsmönnum upplýstum um gang mála. Ekki ætti að líða langur tími þar til hægt verður að greina frá frekari áætlun.“
Íslandsbanki hefur stefnt að því að stækka aðalhöfuðstöðvar sínar á Kirkjusandi með viðbyggingu við suðurvesturenda þeirrar byggingar sem fyrir er. Samhliða ætlar bankinn sér að sameina starfsemi höfuðstöðva sinna, sem nú eru á fjórum stöðum, á einn stað á Kirkjusandi. Viðbyggingin á að vera um sjö þúsund fermetrar og áætlanir gerðu ráð fyrir að framkvæmdir við hana myndu hefjast í lok síðasta árs. Þær eru enn ekki hafnar.