Fimm milljarða króna arðgreiðsla,
sem stjórn VÍS lagði nýverið til að yrði greidd út úr félaginu, nýtur ekki
stuðnings nokkurra af stærstu hluthöfum félagsins. Þrýstingur er á stjórn VÍS
að draga tillöguna til baka annars muni hluthafarnir kjósa gegn henni á
aðalfundi sem haldin verður 17. mars. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu. Þar
eru hluthafarnir ekki sem styðja arðgreiðsluna ekki nefndir. Þrír af fjórum
stærstu hluthöfum VÍS eru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins. Stærstur er
Lífeyrissjóður verzlunarmanna en Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður
starfsmanna ríkisins eru einnig á meðal stærstu eigenda. Alls eiga
lífeyrissjóðir landsins tæplega 36 prósent hlut í VÍS.
VÍS hagnaðist um 2,1 milljarð króna í fyrra en ætlar að greiða rúmlega tvöfalda þá upphæð út í arð til hluthafa. Þetta er gert á grunni nýrra reikniskilareglna sem lækkar vátryggingaskuld félagsins, sem oft er nefnd bótasjóður, um fimm milljarða króna en eykur eigið fé um 3,7 millarða króna.
Bæði Sjóvá og TM, hin stóru tryggingafélög landsins sem skráð eru á markað, ætla einnig að greiða hluthöfum sínum út háar arðgreiðslur í ár. Samtals hafa stjórnir tryggingafélaganna þriggja lagt til að hluthöfum verði greitt út samtals 9,6 milljarðar króna í arð vegna síðasta reikningsárs auk þess sem tillögur hafa verið lagðar fram um endurkaup á hlutabréfum hluthafa fyrir 3,5 milljarða króna. Við endurkaup á hlutabréfum þarf ekki að greiða fjármagnstekjuskatt.
Fréttablaðið fjallar einnig um arðgreiðslur tryggingafélaganna á forsíðu í dag. Þar segir að efnahags- og viðskiptanefnd ætli að ræða arðgreiðslur tryggingafélaganna stuttlega á fundi sínum í dag. Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, mun síðan leggja til við nefndarmenn að málið verði tekið fyrir á sér fundi og óska eftir minnisblöðum frá Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og tryggingafélögunum sjálfum vegna þess.