Stjórn Sjóvá ákvað á fundi í dag að leggja fram breytingartillögu fyrir komandi aðalfund félagsins þess efnis að fyrirhuguð arðgreiðsla til hluthafa var lækkuð úr 3,1 milljarði króna í 657 milljónir króna. Hún er hún jafn há og hagnaður Sjóvár var á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar sem send var í hádeginu í dag.
Í greinargerð sem fylgir breytingartillögunni segir að þetta sé gert í ljósi viðbragða við fyrirætlun stjórnar um arðgreiðslu og yfirstandandi orðsporsáhættu sem orðið hafi vegna hennar.„Fyrri tillaga stjórnar var byggð á yfirlýstri arðgreiðslustefnu félagsins og í samræmi við fjárhagslegan styrk þess. Miðaðist hún við að fjárhagsstaðan yrði áfram jafn sterk eftir greiðslu arðs og hún var í ársbyrjun 2015. Forsenda fyrri tillögu um arðgreiðslu byggir á rekstrarniðurstöðu síðasta árs en ekki á breyttum reikningsskilum eða breytingu á tjónaskuld eins og misskilningur hefur verið um í umræðinni. Rangfærslur um áhrif arðgreiðslu á fjárhagslegan styrk ógna orðspori Sjóvár. Það er skylda stjórnar að gæta að orðspori félagsins og í því ljósi er þessi tillaga sett fram. Stjórn Sjóvár harmar þá tortryggni sem beinst hefur að félaginu undanfarna daga. Með þessari breytingartillögu vill stjórn bregðast við henni og mun samhliða beita sér fyrir bættri upplýsingagjöf í því skyni að stuðla að aukinni sátt."
Tveir dagar eru síðan að stjórn Sjóvá sendi frá sér yfirlýsingu og sagði að félagið myndi standa við arðgreiðsluáformin.
Mikil gagnrýni vegna arðgreiðslna tryggingafélaga
Tillögur stjórna þriggja stærstu tryggingafélaga landsins, VÍS, Tryggingarmiðstöð (TM) og Sjóvá, um að greiða eigendum sínum samanlagt 9,6 milljarða króna í arð og kaupa af þeim hlutabréf upp á 3,5 milljarða króna, hefur vægast sagt mælst illa fyrir. Sérstaklega þar sem hagnaður tveggja þeirra, VÍS og Sjóvár, er mun lægri en fyrirhuguð arðgreiðsla. VÍS hagnaðist nefnilega um 2,1 milljarð króna í fyrra en ætlar að greiða hluthöfum sínum út fimm milljarða króna í arð. Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna en ætlar að greiða út 3,1 milljarð króna í arð. TM hagnaðist hins vegar um 2,5 milljarða króna og ætlar að greiða hluthöfum sínum út 1,5 milljarð króna.
Bæði Sjóvá og VÍS sendu frá sér tilkynningar fyrir tveimur dögum síðan þar sem félögin sögðu að staðið yrði við arðgreiðslurnar. Nú er Sjóvá hætt við.