Stjórn Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hefur ákveðið að lækka arðgreiðslu til hluthafa sinna úr fimm milljörðum króna í 2.067 milljónir króna. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar rétt í þessu. Þetta er gert þrátt fyrir að stjórnin segi að arðgreiðslutilkynningar hennar hafi verið vel innan þess ramman sem markmið um fjármagnsskipan félagsins gerir ráð fyrir.
Þar segir að viðskiptavinir og starfsmenn VÍS skipti félagið miklu. „Stjórnin getur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún núverandi arðgreiðslustefnu, þá geti það skaðað orðspor fyrirtækisins. Í því ljósi hefur stjórn ákveðið að leggja til aðgreiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs. Stjórn VÍS telur mikilvægt að fram fari umræða innan félagsins, meðal hluthafa og út í samfélaginu um langtímastefnu varðandi ráðstöfun fjármuna sem ekki nýtast rekstri skráðra félaga á markaði."
Tilkynning VÍS kemur í kjölfar tilkynningar Sjóvár um að það tryggingafélag hafi ákveðið að lækka arðgreiðslu sína úr 3,1 milljarði króna í 657 milljónir króna. Hún er nú jafn há og hagnaður Sjóvár var á síðasta ári.
Tveir dagar eru síðan að stjórnir bæði VÍS og Sjóvár sendu frá sér tilkynningu þar sem þær sögðu að félögin myndu ekki breyta arðgreiðsluáformum sínum.
Tillögur stjórna þriggja stærstu tryggingafélaga landsins, VÍS, Tryggingarmiðstöð (TM) og Sjóvá, um að greiða eigendum sínum samanlagt 9,6 milljarða króna í arð og kaupa af þeim hlutabréf upp á 3,5 milljarða króna, hefur vægast sagt mælst illa fyrir. Sérstaklega þar sem hagnaður tveggja þeirra, VÍS og Sjóvár, er mun lægri en fyrirhuguð arðgreiðsla. VÍS hagnaðist nefnilega um 2,1 milljarð króna í fyrra en ætlar að greiða hluthöfum sínum út fimm milljarða króna í arð. Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna en ætlar að greiða út 3,1 milljarð króna í arð. TM hagnaðist hins vegar um 2,5 milljarða króna og ætlar að greiða hluthöfum sínum út 1,5 milljarð króna.