„Við þessar aðstæður er algerlega óþolandi að heyra enn úrtöluraddir um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Hér er alvörumál á ferðinni sem snýst um öryggismál allra landsmanna. Eftir 15 ára yfirlegu hefur staðsetning spítalans verið ákveðin og þeir sem kjósa að hleypa þessu máli upp nú þegar framkvæmdir eru hafnar og málinu hefur verið siglt í höfn verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni.“
Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í pistli á vef spítalans, þar sem hann gerir meðal annars hugmyndir um að hætta við uppbyggingu spítalans við Hringbraut að umtalsefni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur talað fyrir opinberlega, nú síðast í gær og í dag, að heppilegra væri að byggja spítalann upp annars staðar, meðal annars á Vífilsstöðum.
Hann segir það enga bið þola að byggja upp nýja aðstöðu, og það sé öryggismál fyrir alla landsmenn.
Pistillinn fer hér í heild sinni:
„Aftur og ítrekað hef ég hér í þessum pistlum greint frá þeirri óþolandi stöðu sem er á aðalsjúkrahúsi landsmanna þar sem verulega veikt fólk fær ekki fullnægjandi þjónustu vegna þess að ekki eru nægilega mörg rými á spítalanum. Aðstreymi sjúklinga er á stundum gríðarlegt og við höfum endurtekið undanfarið lent í þeirri ótrúlegu stöðu að milli 20-30 sjúklingar sem tilbúnir eru til innlagnar á bráðadeildir spítalans hafa mátt bíða á bekkjum og jafnvel stólum á göngum slysa- og bráðamóttöku.
Samhliða hafa gangainnlagnir og aðrar yfirlagnir á bráðalegudeildir verið umfram þolmörk og álag því gríðarlegt á starfsfólkið okkar. Þrengsli, skortur á viðunandi hreinlætisaðstöðu og annarri tilhlýðilegri aðstöðu fyrir veikt fólk og þá sem það annast er æpandi. Þetta bitnar bæði á eldri og yngri sjúklingum, en þeir sem eru veikastir fyrir líða þó mest.
Í fjárlögum ársins 2016 er verulegt fé sett í það að bæta fráflæði þess fólks af spítalanum sem búið er að sinna en sem bíður endurhæfingar eða hjúkrunarrýmis. Þau úrræði sem verið er að grípa til tekur hins vegar tíma að koma af stað og í millitíðinni eykst álagið sífellt.
Í þessu ljósi var það niðurstaða stjórnenda bráðamóttöku að nauðsynlegt væri að grípa til þess óyndisúrræðis að æfa í dag móttöku sjúklinga í bílageymslu bráðamóttökunnar því hugsanlegt er að nota þurfi hana sem sjúkrarými um helgina. Bílageymslan er þannig útbúin að hægt er með litlum fyrirvara að taka þar við sjúklingum. Er þetta rými hugsað til notkunar í neyð; við eiturefnaslys eða hópslys. Það er hins vegar til marks um það hversu alvarlegt ástandið hefur verið undanfarið að nú er hugsanlegt að nota þurfi bílageymsluna, ekki til að bregðast við neyðarástandi heldur í venjulegri flensutíð.
Við þessar aðstæður er algerlega óþolandi að heyra enn úrtöluraddir um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Hér er alvörumál á ferðinni sem snýst um öryggismál allra landsmanna. Eftir 15 ára yfirlegu hefur staðsetning spítalans verið ákveðin og þeir sem kjósa að hleypa þessu máli upp nú þegar framkvæmdir eru hafnar og málinu hefur verið siglt í höfn verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Hver einasti dagur sem uppbyggingin tefst, fyrir atbeina aðila með afar takmarkað vit á rekstri eða uppbyggingu háskólasjúkrahúss er alvörumál.
Nokkrir punktar vegna umræðunnar í dag:
Því er haldið fram að mörg ár séu eftir í hönnunarvinnu. Þetta er rangt. Fullnaðarhönnun meðferðarkjarna (mikilvægustu byggingarinnar) verður lokið um mitt ár 2018.
Bara skipulagsmál og hönnun munu tefja verkefnið um 5-10 ár og reyndar mun meira þegar beðið er eftir að byggingin fullkláraðist. Við myndum því enda með þrjá spítala á þremur stöðum, á Vífilsstöðum, Fossvogi og Hringbraut lengi fram eftir þessari öld. Það væri ekki hægt að taka nýja spítala í notkun í áföngum og biðin yrði óbærileg fyrir alla næstu 10-15 ár. Mikil verðmæti færu forgörðum og margar ríkisstjórnir mundu halda áfram að deila um þetta.
Vegna þess sem bæjarstjóri Garðabæjar lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu þá er rétt halda því til haga að spítalabyggingar eru ekki byggðar upp á 10 hæðir eða meira ef menn hafa val um annað. Í þröngum aðstæðum í stórum miðborgum er farið í háhýsi af nauðsyn. Annars er almennt talið að heppilegt hlutfall náist á milli láréttra og lóðréttra ferða í 4-8 hæða byggingum (eins og meðferðarkjarninn á Hringbraut og önnur hús þar verða). Það hefur enginn áhuga á því að ferðast látlaust í lyftum á milli deilda og hæða.
Það er líka rétt að segja það skýrt að háskólasjúkrahús sem þarf að vera í nánu samstarfi við háskólana verður ekki starfrækt með tölvupóstum, símhringingum og rápi um þvert höfuðborgarsvæðið. Landspítali er mikilvægur hlekkur í þeim þekkingarklasa sem verið er að byggja í nágrenni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og öflugra þekkingarfyrirtækja eins og Íslenskrar erfðagreiningar og Alvogen. Slíka klasa er verið að þróa víða um lönd af því þeir skila markvissari vísinda- og þróunarvinnu.
Vífilsstaðir væri afleitur staður fyrir starfsmenn og sjúklinga að ekki sé talað um ferðamenn og þá fjölmörgu starfsmenn og nemendur sem flestir starfa vestan Elliðaár. Nýleg skýrsla KPMG sýndi líka skýrt fram á það að út frá umferð og búsetu á höfuðborgarsvæðinu eru Vífilsstaðir síðri kostur en Hringbraut.
Það er rétt að ítreka það að þörf Landspítala fyrir nýjan spítala er gríðarleg og ekkert má stöðva þá uppbyggingu sem hafin er. Heilsu þjóðarinnar vegna verður Landspítali að rísa við Hringbraut eins og samþykkt hefur verið á öllum stigum máls og einróma af Alþingi. Hins vegar er lag fyrir áhugamenn um þá uppbyggingu sem nauðsynleg verður að 30-40 árum liðnum að nýta hugmyndir sínar fyrir þann fasa. Reynslan ætti að kenna mönnum að ekki er ráð nema í tíma sé tekið.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson.“