Reykjavík er í 29. sæti yfir dýrustu borgir heims samkvæmt nýrri samantekt The Economist sem birt var á fimmtudag. Tímaritið tekur reglulega saman hvað það kostar að búa í öllum elstu borgum heims og hefur gert það árum saman. Því ofar sem borg er á listanum því betur gengur íbúum hennar efnahagslega og því eftirsóknarverðara þykir að búa í þeim. Fyrir tíu árum síðan, árið 2006, var Reykjavík í þriðja sæti yfir dýrustu borgir heims. Fall íslensku höfuðborgarinnar á eftirhrunsárum er því umtalsvert. Staða hennar á meðal borga heims hefur þó braggast á undanförnum árum. Árið 2013 var Reykjavík í 47. sæti á lista The Economist. Nýi listinn sýnir stöðuna eins og hún var í september 2015.
Listinn um kostnað sem fylgir búsetu í borgum heimsins er tekinn saman tvisvar á ári. Hann nær til 131 borgar og við gerð hans eru borin saman um 400 verð á um 160 mismunandi þjónustum og vörum sem hægt er að kaupa í borgunum. Þeirra á meðal eru matur, drykkir, föt, nauðsynjavörur heimilisins, húsnæðiskostnaður, kostnaður vegna orku-, vatns- og netkaupa, menntunarkostnaður og kostnaður við tómstundir og skemmtun. Mælikvarðinn sem notaður er til að staðsetja borgirnar í sæti á listanum er hlutfallslegur kostnaður þess að búa í þeim samaborið við New York. Það kostar Reykvíkinga t.d. 83 prósent af því sem það kostar að búa í New York að draga fram lífið.
Singapúr er dýrasta borg í heimi samkvæmt nýjasta listanum og heldur því sæti frá því að hann var birtur síðast. Hún hefur þó dalað í verði á milli ára og er nú tíu prósent ódýrari í samanburði við New York en árið áður.Styrking á gengi Bandaríkjadals gerði það að verkum að allar 16 borgir landsins sem skoðaðar eru við gerð listans fóru upp um að minnsta kosti 15 sæti á milli ára. New York er nú í fyrsta sinn í 14 ár á meðal tíu dýrustu borga heims. Fimm Evrópuborgir eru á meðal tíu dýrustu borganna. Þær eru Zürich, Genf, París, London og Kaupmannahöfn.
Ódýrasta borgin á listanum er Lusaka, höfuðborg Sambíu. Að búa þar kostar einungis 41 prósent af því sem það kostar að búa í New York. Lækkandi verð á hrávöru, og sérstaklega olíu, hefur gert nokkrar borgir sem hafa verið á mikilli efnahagslegri siglingu á undanförnum árum mun ódýrari en þær voru. Þar ber helst að nefna Ríó, höfuðborg Brasilíu, sem fellur um heil 52 sæti á listanum milli birtinga, og stærstu borgir Rússlands, Moskvu og St. Pétursborg, sem falla um 63 og 51 sæti. Í Rússlandi lækkaði kostnaður við búsetu í þessum borgum um 40 prósent á milli ára.