Aðalfundi VÍS, sem átti að fara fram í dag, hefur verið frestað. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag drógu þeir Guðmundur Þórðarson og Jóhann Halldórsson framboð sín til stjórnar félagsins til baka rétt áður en aðalfundurinn hófst, eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins.
Gerði það að verkum að fjórar konur og einn karl voru í framboði til fimm manna stjórnar og því ómögulegt að mynda stjórn sem uppfyllti kröfur laga um kynjakvóta, sem gerir ráð fyrir að minnsta kosti 40 prósent stjórnar séu af hvoru kyni.
Var því tekin ákvörðun um að fresta stjórnarkjöri og situr núverandi stjórn VÍS því áfram, að því er segir í frétt Viðskiptablaðsins.
Í stjórn VÍS sitja nú Herdís Dröfn Fjeldsted, stjórnarformaður, Jostein Sørvoll sem er varaformaður stjórnar, Guðmundur Þórðarson, Bjarni Brynjólfsson og Helga Jónsdóttir.
Enn í framboði til stjórnar voru þau Guðný Hansdóttir, Helga Hlín Hákonardóttir, Helga Jónsdóttir, Herdís Dröfn Fjeldsted, Jostein Sørvoll.
Stjórn VÍS ákvað 10. mars síðastliðinn að lækka tillögu um arðgreiðslu til hluthafa sinna úr fimm milljörðum króna í 2.067 milljónir króna. Frá þessu var greint í tilkynningu til Kauphallar. Þetta var gert þrátt fyrir að stjórnin segði að arðgreiðslutilkynningar hennar hafi verið vel innan þess ramman sem markmið um fjármagnsskipan félagsins gerir ráð fyrir.
Í tilkynningunni segir að viðskiptavinir og starfsmenn VÍS skipti félagið miklu. „Stjórnin getur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún núverandi arðgreiðslustefnu, þá geti það skaðað orðspor fyrirtækisins. Í því ljósi hefur stjórn ákveðið að leggja til aðgreiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs. Stjórn VÍS telur mikilvægt að fram fari umræða innan félagsins, meðal hluthafa og út í samfélaginu um langtímastefnu varðandi ráðstöfun fjármuna sem ekki nýtast rekstri skráðra félaga á markaði."
Ráðgert er að aðalfundur VÍS fari fram eftir þrjá til fjórar vikur.