Fjármálaeftirlitið (FME) segir að hugtakið „bótasjóður“ sé ekki lengur til í íslenskum lögum og hafi ekki verið notað um vátryggingastarfsemi né í reikningsskilum vátryggingafélaga frá árinu 1994. Í umræðu vegna arðgreiðslna tryggingafélaga, í kjölfar þess að þau hafa getað lækkað vátryggingaskuld sína en hækkað eigið fé sitt, hafi oft verið vísað í yfir 20 ára gömul viðtöl við þáverandi forstjóra vátryggingafélaga þar sem því hafi verið haldið fram að bótasjóður sé „eign“ tjónþola eða vátryggingartaka. Þetta kemur fram í frétt sem birt var á vef FME í gær.
Þar segir einnig að vátryggingaskuld sé á skuldahlið í efnahagsreikningi vátryggingafélaga. Skuldin sé þannig reiknuð út að hún á að samsvara óuppgerðum heildarskuldbindingum vegna gerðra samninga um vátryggingar.„ Hluti af heildareignum vátryggingafélaga eru ætlaðar til að vega á móti vátryggingaskuldinni og eru þær notaðar þegar greiða þarf út tjón. Mat á vátryggingaskuld tekur tillit til áætlaðra tjóna og byggir á upplýsingum um tjónatíðni og kostnað vegna tjóna í fortíðinni. Hingað til hafa lög ekki mælt fyrir um samræmda aðferð við útreikning á vátryggingaskuld og hafa vátryggingafélögin fram til þessa bætt nokkuð háu álagi á vátryggingaskuldina til að tryggja að þau eigi nægar eignir á móti til að greiða út tjón."
Í fréttinni eru einnig birtar upplýsingar um hvernig rekstur vátryggingafélaga sé tvískipt, annars vegar vátryggingastarfsemi og hins vegar fjárfestingastarfsemi. Það sé mikilvægt að vátryggingastarfsemin standi undir sér og að svokallað samsett hlutfall sé í lagi þannig að iðgjöld dugi fyrir kostnaði vegna þess hluta starfseminnar. Auk þess sé mikilvægt að vátryggingafélög reiði sig ekki á að tekjur vegna fjárfestinga séu stöðugar, þar sem mikið flökt geti verið á verðbréfamörkuðum. „Það er á ábyrgð stjórna vátryggingafélaganna að tryggja orðspor félaganna haldist gott, en það gera þau best með því að huga bæði að hagsmunum viðskiptavina og fjárfesta. Þær þurfa að ákvarða með hvaða hætti vátryggingafélögin láta viðskiptavini sína njóta góðs af hagnaði sínum. Þetta á við hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingastarfsemi."
Tillögur stjórna þriggja stærstu tryggingafélaga landsins, VÍS, Tryggingarmiðstöðvarinnar (TM) og Sjóvá, um að greiða eigendum sínum samanlagt 9,6 milljarða króna í arð og kaupa af þeim hlutabréf upp á 3,5 milljarða króna, fyrir skemmstu vakti mikið umtal. Sérstaklega þar sem hagnaður tveggja þeirra, VÍS og Sjóvár, er mun lægri en fyrirhuguð arðgreiðsla. VÍS hagnaðist um 2,1 milljarð króna í fyrra en ætlaði að greiða hluthöfum sínum út fimm milljarða króna í arð. Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna en ætlaði að greiða út 3,1 milljarð króna í arð. TM hagnaðist hins vegar um 2,5 milljarða króna og ætlar að greiða hluthöfum sínum út 1,5 milljarð króna. TM greiddi hluthöfum sínum arð umfram hagnað í fyrra.
Bæði VÍS og Sjóvá ákváðu að lækka arðgreiðslur sínar í kjölfar þeirrar umræðu sem átti sér stað vegna þeirra. Stjórnir beggja fyrirtækja báru fyrir sig mögulega orðsporsáhættu.