Þingmenn stjórnarandstöðunnar vilja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra komi fyrir þingið og geri grein fyrir félaginu sem eiginkona hans á á Tortóla. Því var meðal annars velt upp á þinginu í dag hvort Sigmundur hefði brotið siðareglur þingmanna, ef þær hefðu verið komnar til framkvæmda, en þær eru á dagskrá þingsins í dag.
Björn Valur Gíslason, varaþingmaður VG, óskaði eftir því í upphafi þingfundar í dag að fundinum yrði frestað og Sigmundi Davíð yrði gefinn kostur á því að mæta í þingið og gera grein fyrir málinu. Eins og greint hefur verið frá á Anna Sigurlaug Pálsdóttir, kona forsætisráðherra, félag á Tortóla sem heldur utan um fjölskylduarf hennar. Hún hefur sagt að um hennar séreign sé að ræða.
„Forsætisráðherrahjónin eru í gegnum peningafélag sitt skráð á Tortóla meðal kröfuhafa í alla íslensku bankanna upp á mörg hundruð milljónir króna,“ sagði Björn Valur meðal annars. Á sama tíma og forsætisráðherra hefði krafist þess að fá að vita hverjir kröfuhafarnir, hrægammarnir, væru, hefði hann verið einn af þeim. Þetta hefði verið á sama tíma og samið hafi verið við kröfuhafana. Það væri því fullkomlega eðlileg krafa að fresta fundinum og gefa Sigmundi, og öðrum ráðherrum einnig, möguleika á því að segja frá málum af þessu tagi. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, þvertók fyrir að gera nokkuð slíkt. Hann sagði að forseti Alþingis teldi „þetta í hæsta máta mjög óviðurkvæmilegt og hafnar þess vegna algjörlega þessari beiðni, vekur athygli á því að meðal annars í hagsmunaskráningu Alþingis er kveðið mjög skýrt á um það að upplýsingar um fjármál maka þingmanna eiga ekki erindi þar, og harmar þessa uppákomu.“
„Hér held ég að botninum hafi verið náð,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins um beiðni Björns Vals. „Hér er ekki verið að fela neitt. Ég krefst þess að háttvirtur þingmaður biðjist afsökunar á orðum sínum.“ Páll Jóhann Pálsson, samflokksmaður hennar, sagði það dapurlegt að heyra Björn Val „draga umræðuna niður í svaðið.“ Þá komu tveir ráðherrar Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra einnig í ræðustól til að gagnrýna Björn Val, og það gerði Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins líka. Þau töldu verið að draga maka forsætisráðherra inn í umræður á þinginu, sem komi Alþingi ekkert við. „Að fara í þennan skítaleiðangur sem háttvirtur þingmaður Björn Valur Gíslason virðist leiða er algjörlega sorglegt og það sem er að gera út af við traust á Alþingi,“ sagði Gunnar Bragi.
Þessu voru stjórnarandstæðingar ekki sammála, og töldu eðlilegt að ræða málið. Það er ekki eins og sú umræða sem hér er vakin sé úr lausu lofti gripin, sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, hins vegar. Umræðunni um fjármál Önnu Sigurlaugar, sem væru sannarlega hennar mál, fylgdi að Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmudnar, „Það að tengja þetta mál stöðu forsætisráðherra og hans hagsmunum og hagsmunaskráningu er ákvörðun sem þau hafa tekið sjálf,“ sagði Svandís. Þess vegna væri mjög eðlilegt að ræða það hvort ekki ætti að gera svona ríka hagsmuni, eins og væru til staðar í þessu máli, sýnilega almenningi með því að breyta hagsmunaskráningum þingmanna. Bæði hún og Steingrímur J. Sigfússon samflokksmaður hennar bentu á að á dagskrá þingsins í dag væri umræða um siðareglur alþingismanna.
Steingrímur sagði að þar standi meðal annars að þingmönnum beri að greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varði opinber störf þeirra. Þá kveði siðareglurnar enn fremur á um að þingmenn ættu að forðast árekstra milli almannahagsmuna og fjárhagslegra hagsmuna eða annarra hagsmuna sem væru faglegir, persónulegir eða tengdir fjölskyldu þeirra. Þá eigi þingmenn að vekja athygli á öllum hagsmunum sem máli skipta. „Vakti hæstvirtur forsætisráðherra athygli á hagsmunum sínum, fjölskylduhagsmunum sínum, sem kröfuhafi íslensku bankanna, þegar hér voru til meðferðar frumvörp um stöðugleikaskatt og stöðugleikaframlög?“ spurði Steingrímur. „Hefði hann ekki brotið siðareglurnar hefðu þær verið komnar til framkvæmda með því að gera það ekki?“