Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að tíðinda sé að vænta af aflandskrónuútboði vegna áætlunar um losun hafta á ársfundi Seðlabanka Íslands sem fer fram á morgun. Þar sagði hann auk þess að mögulega verði fregnir af tækjum sem fyrirhugað er að koma í gagnið til að draga úr vaxtamunaviðskiptum við tilteknar aðstæður. Þetta kom fram á fundi vegna vaxtaákvörðunar Seðlabanka Íslands sem haldinn var í dag.
Þar var Már spurður um fyrri yfirlýsingar sínar um að fyrirkomulag aflandskrónuútboðsins yrði kynnt í mars eða apríl, en útboðið er hluti af áætlun stjórnvalda um losun hafta sem kynnt var í júní í fyrra. Upphaflega var reiknað með að það myndi fara fram í fyrrahaust en það hefur dregist, aðallega vegna þess að Seðlabankinn vildi fyrst klára nauðasamninga slitabúa föllnu bankanna áður en það færi fram. Þeir voru allir samþykktir í desember síðastliðnum og fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um stofnun félags til að taka við stöðugleikaframlögum þeirra.
Már sagði að fyrri yfirlýsing hans um aflandskrónuútboðið stæði. „Ársfundur Seðlabankans verður á morgun.Ég held að það sé ágætt að leggja þar við hlustir. Kannski verður þar eitthvað aðeins meira kjöt á beinunum þar,“ sagði Már.
Hann var einnig spurður út í aðgerðir til að draga úr vaxtamunaviðskiptum, til dæmis skatt sem myndi leggjast á innflæði, og hvort ekki færi að draga til tíðinda varðandi slíka þróun. Már vísaði aftur til þess að ársfundur bankans væri á morgun. „Kannski verða einhverjar frekar fregnir af þessu þar.“
Vaxtamunaviðskipti hafa verið að aukast mjög mikið á Íslandi að undanförnu. Alls keyptu erlendir aðilar eignir á Íslandi fyrir 76,1 milljarð króna í fyrra. Langstærstur hluti fjárfestingar þeirra var í íslenskum ríkisskuldabréfum, alls um 54 milljarðar króna. Þeir keyptu auk þess hlutabréf fyrir 5,7 milljarða króna, fasteignir fyrir 652 milljónir króna og fjárfestu í atvinnurekstri fyrir um þrettán milljarða króna. „Aðrar fjárfestingar erlendra aðila“ námu síðan um 1,1 milljarði króna. Þessar tölur gefa skýrt til kynna að vaxtamunaviðskipti eru hafin af mikilli alvöru á ný.
Í ljósi þessa að vextir á Íslandi eru mun hærri en víða annarsstaðar – stýrivextir hér eru 5,75 prósent en t.d. núll í Evrópu – þá eykst hættan á vaxtamunaviðskiptum til muna með losun hafta.