Gylfi Zoëga, prófessor í
hagfræði við Háskóla Íslands, vill að lögð verði komugjöld á alla sem koma til
landsins, bæði ferðamenn og landsmenn. Tekjurnar sem þetta gjald myndi skapa
ætti að nota til að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar. Miðað við þann fjölda
ferðamanna sem heimsótti Ísland í fyrra, þegar 1.262 þúsund slíkir komu hingað
til lands, og að 450 þúsund Íslendingar hafi snúið aftur úr ferðalögum erlendis
á árinu 2015 væri hægt að mynda tekjur upp á fimm milljarða króna með því að
leggja á þrjú þúsund króna komugjald. Þetta kemur fram í grein sem Gylfi
skrifaði í nýjustu útgáfu Vísbendingar sem greint er frá í Fréttablaðinu í dag.
Gylfi bendir á að á Íslandi hafi ýmsir oft grætt mikið á kostnað almenningseigna. Þannig sé einnig með ferðaþjónustuna. Verði ekkert að gert muni of margir ferðamenn leika innviði og náttúru landsins grátt og greinin ekki dafna til lengri tíma litið. Hagsmunir einkafyrirtækja og þjóða fari ekki alltaf saman, líkt og sést hafi í bankahruninu. „Það er umhugsunarvert að bankahagkerfinu sem hrundi hafi ekki verið búin stofnanaleg umgjörð sem kom í veg fyrir þau lögbrot og glannaskap sem síðan hafa komið í ljós. Það er einnig merkilegt að þrátt fyrir vaxandi mikilvægi ferðaþjónustu, sem nú er orðin stærsta útflutningsgreinin, skuli ekki hafa verið veitt meira fjármagni í uppbyggingu innviða og öryggismál tengd þessari grein[...]Þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu neita að leggja á komugjald þá þarf engu að síður að setja lög um slíkt. Og ef ferðamönnum fækkar fyrir vikið, þá er það ekki alslæmt.“