Fjármálaeftirlitið hefur sent kæru til embættis héraðssaksóknara vegna fréttar sem birtist í Morgunblaðinu fyrir ári síðan um að Borgun hafi tekið út rúmlega 200 milljónir króna af reikningi sínum í Sparisjóði Vestmannaeyja. Eftirlitið telur að um brot á lögum um bankaleynd sé að ræða og hefur kært ótilgreindan aðila fyrir að hafa komið þeim upplýsingum til Morgunblaðsins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina, Stefán Einar Stefánsson, er vitni í málinu en er ekki kærður í því, líkt og kom upprunalega fram.
Fréttin birtist 31. mars í fyrra undir fyrirsögninni „700 milljónir króna teknar út úr Sparisjóði Vestmannaeyja“. Í henni kom einnig fram að Borgun hefði tekið út rúmar 200 milljónir króna í því áhlaupi.
Langt síðan eftirlitið hefur kært blaðamenn
Nokkuð langt er síðan að Fjármálaeftirlitið reyndi að beita sér gegn birtingu upplýsinga úr bankakerfinu í fjölmiðlum á grundvelli bankaleyndar. Það gerðist síðast í ágúst 2013 þegar Kjarninn birti í heild sinni skýrslu sem PwC hafði unnið fyrir Fjármálaeftirlitið um starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík, sem þá var gjaldþrota og hafði verið felldur inn í Landsbankann. Sparisjóði Vestmannaeyja var einnig felldur inn í Landsbankann í fyrra og er því ekki lengur til í þeirri mynd sem hann var þegar umfjöllun Morgunblaðsins var birt.
Efnisatriði skýrslunnar um Sparisjóðinn í Keflavík voru rakin í fréttaskýringu og skýrslan í heild sinni birt á vef Kjarnans.
Fjármálaeftirlitið gerði kröfu um að skýrslan yrði tekin úr birtingu vegna upplýsinga sem finna má í skýrslunni sem eftirlitið telur að eigi ekki erindi við almenning. Í beiðni eftirlitsins var m.a. vitnað til laga um bankaleynd. Auk þess gaf Fjármálaeftirlitið sterklega í skyn að birting skýrslunnar gæti varðað við almenn hegningarlög.
Kæru gegn sex blaðamönnum var vísað frá
Kjarninn hafnaði beiðni eftirlitsins og kom þeim skilaboðum á framfæri að hann teldi alvarlegt að eftirlitsstofnun, sem starfar í þágu almennings, skuli gefa það í skyn að fjölmiðill sé að gerast sekur um brot á hegningarlögum með því að birta skýrslu um starfsemi Sparisjóðs. Ekki síst vegna afleiðinga sem fall sparisjóðsins hafði fyrir ríkissjóð og íbúa á Suðurnesjum. Samtals þurfti að leggja fram 26 milljarða króna úr ríkissjóði vegna falls sjóðsins og stór hópur fólksins á Suðurnesjum missti ævisparnað sinn.
Kjarninn taldi einnig fráleitt að birting skýrslunnar hefði falið í sér lögbrot og benti á að Fjármálaeftirlitið hefði áður reynt að hindra blaðamenn í umfjöllun um fjármálafyrirtæki sem væru ekki lengur til, vegna birtingar á upplýsingum úr lánabók Kaupþings og Glitnis skömmu skömmu eftir hrun. Þá var einnig vísað í brot á bankaleynd. Fjármálaeftirlitið kærði þá alls sex blaðamenn til sérstaks ríkissaksóknara sem vísaði frá kæru eftirlitsins. Blaðamennirnir sem um ræðir voru Agnes Bragadóttir, Þorbjörn Þórðarson, Kristinn Hrafnsson, Egill Helgason, Guðmundur Magnússon og Ingi Freyr Vilhjálmsson.
I ljósi þess að fordæmi voru fyrir því að kærum gegn blaðamönnum á grundvelli bankaleyndar væri vísað frá, og vegna þess að upplýsingarnar sem Kjarninn birti áttu klárt erindi við almenning, féllst Kjarninn og lögmaður hans ekki á rök Fjármálaeftirlitsins í málinu þá hafnaði hann því að fjarlægja skýrsluna af vef sínum og hélt áfram umfjöllun um málefni Sparisjóðsins í Keflavík. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri hans var ákærður fyrr í þessum mánuði fyrir umboðssvik.
Fjármálaeftirlitið fylgdi ekki eftir hótunum sínum um kæru gegn Kjarnanum.
Fréttin varð uppfærð klukkan 9:30 eftir að upplýsingar bárust um að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina væri ekki kærður heldur ótilgreindur aðili sem liggur undir grun um að hafa komið upplýsingunum til Morgunblaðsins.