Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í ræðu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag, að undirbúningur útboðs vegna aflandskróna væri kominn vel á veg og vænta mætti dagsetningar innan tíðar. „Undirbúningur útboðs er nú kominn vel á veg og vænta má að dagsetning þess og fyrirkomulag verði kynnt tímanlega til að það geti farið fram á fyrri hluta ársins. Í framhaldinu ætti að óbreyttu að vera hægt að fara tiltölulega hratt í losun hafta á innlenda aðila enda skapa viðskiptaafgangur, gjaldeyrisinnstreymi og öflugur gjaldeyrisforði kjöraðstæður til þess. Hins vegar er mikilvægt að ná farsælli niðurstöðu varðandi aflandskrónur áður en almenn losun fjármagnshafta á innlenda aðila á sér stað,“ sagði Már.
Í ræðu sinni kom hann víða við og sagði stöðu efnahagsmála þessi misserin um margt vera góð. Innra og ytra jafnvægi í þjóðarbúskapnum væri gott, skuldir hefðu verið greiddar niður og að verðbólgu hefði verið haldið í skefjum. „Verðbólgan hefur verið við eða undir markmiði í heil tvö ár. Það er lengsta
tímabil af því tagi síðan verðbólgumarkmið var tekið upp en það á 15 ára
afmæli á páskadag. Þetta gerist þrátt fyrir miklar launahækkanir að undanförnu
sem við venjulegar aðstæður hefðu skilað sér í mun meiri verðbólgu. En svo
vill til að aðstæðurnar eru langt frá því að vera venjulegar. Viðskiptakjör
þjóðarinnar hafa batnað verulega vegna lækkunar olíu- og annars hrávöruverðs
og á alþjóðavettvangi gætir víða verðhjöðnunartilhneiginga. Þetta hefur unnið
á móti innlendum verðbólguþrýstingi. Á sama tíma hefur útflutningur vöru og
þjónustu verið í góðum vexti ekki síst vegna mikillar fjölgunar erlendra
ferðamanna. Þá jukust þjóðartekjur í fyrra um nær 8% að raungildi samkvæmt
nýbirtum tölum Hagstofunnar ef horft er í gegnum slitabú föllnu bankanna,“ sagði Már.
Hann sagði enn fremur að ennþá ætti eftir að leysa úr málum, svo hægt sé að tala um að fjármálakreppunni sé lokið. „Við erum ekki enn búin með uppgjör
fjármálakreppunnar en stundin nálgast óðfluga,“ sagði Már í lok ræðu sinnar.