Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og
forsvarsmaður stærstu undirskriftasöfnunar Íslandssögunnar, segir skort á
fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra frá Alþingi bitna á
allri þjóðinni. Sigmundur Davíð væri „best geymdur annars staðar og við aðra iðju eins
og til dæmis á Flórída að fá útrás fyrir áhuga þinn á skipulagsmálum með því að
spila Matador við sjálfan þig.“ Hann segir enn fremur að
forsætisráðherra sé í stríði við samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn,
Sjálfstæðisflokkinn, með tillögu sinni um byggingu nýs Landsspítala við
Vífilstaði í Garðabæ, en sú tillaga er í andstöðu við þá stefnu sem Kristján
Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur í málinu. Þetta er meðal þess sem fram
kemur í harðorðu opnu bréfi sem Kári skrifar til Sigmundar Davíðs og birtist í
Fréttablaðinu í dag.
Kári og Sigmundur Davíð hafa átt í opinberum orðaskiptum allt frá því að Kári skrifaði grein í desember síðastliðnum þar sem hann sagðist ætla að safna 100 þúsund undirskriftum gegn ríkisstjórninni. Sigmundur Davíð svaraði Kára í grein þar sem hann vísaði ítrekað til hans sem „Toppara“. Í byrjun febrúar birtist síðan viðtal við Kára í Reykjavík Grapevine þar sem hann kallaði forsætisráðherra lítinn tveggja ára offitusjúkling. Kári baðst síðar afsökunar á ummælunum með eftirfarandi orðum: „Þessi skítur á minni ábyrgð. Þessa lotu vann forsætisráðherra 10-0."
Rekur ýmsar sögur af Sigmundi Davíð
Með opnu bréfi sínu í dag er ljóst að Kári er að hefja nýja lotu. Þar hrósar hann Sigmundi Davíð fyrir innkomu hans í stjórnmál en segir að það hljóti að hafa verið ungum manni áfall að verða forsætisráðherra. Þá komist hann ekki hærra upp, finnist hann ekki eiga skilið að vera á þeim stalli og fari að horfa niður. „Þá fer manni að sundla,“ segir Kári.
Hann rekur síðan orðróm um samskipti Sigmundar Davíð og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. „Það er til dæmis fleyg sú saga að fyrir um það bil ári hafi Bjarni Ben hringt í þig klukkan þrjú um eftirmiðdag og sagt að hann þyrfti að hitta þig þann daginn og þú hafir fallist á að gera það um fimmleytið á skrifstofu þinni. Þegar Bjarni kom var þig hvergi að finna vegna þess að þú varst á leiðinni til Flórída og hafðir verið í bílnum á leiðinni til Keflavíkur þegar símtalið átti sér stað. Hvers vegna í ósköpunum sagðirðu ekki Bjarna að þú værir á leiðinni í frí? Að öllum líkindum vegna þess að þú varst með samviskubit yfir því að fara. Bjánaskapur, afreksmaður eins og þú á skilið að taka sér öll þau frí sem hann þarf á að halda. Það er hins vegar ekki skynsamlegt að bregðast vopnabróður sínum á þennan hátt fyrir ekki meira silfur.“
Kári gagnrýnir Sigmund Davíð einnig harðlega fyrir hugmyndir
forsætisráðherra um viðbyggingu við Alþingishúsið eftir gamalli tekningu
Guðjóns Samúelssonar og flutning á umsjón með húsafriðun yfir í ráðuneyti hans
vegna áhuga forsætisráðherra á skipulagi og gömlum húsum. Kári segir m.a. að
Guðjón Samúelsson beini „óþægilega mikið athyglinni að gömlum tengslum
Framsóknarflokksins við evrópsk stjórnmálaöfl fortíðarinnar sem við viljum
helst gleyma.“
Kári
nefnir síðan umkvartanir forsætisráðherra gagnvart fjölmiðlum, en Sigmundur
Davíð hefur ítrekað ásakað fjölmiðla um árásir og óbilgjarna umfjöllun frá því
að hann tók við embætti
forsætisráðherra. „Þú hefur æ ofan í æ
kvartað undan því að fjölmiðlar séu ósanngjarnir við þig og blaðamenn spyrji
þig vondra spurninga. Þessi skoðun þín byggir á grundvallarmisskilningi. Þegar
blaðamenn henda í þig hörðum boltum ber þér ekki að líta á það sem ósanngjarna
aðferð til þess að meiða þig heldur tækifæri til þess að sýna þjóðinni að þú
sért sterkur og fastur fyrir og vitir hvað þú sért að gera og getir tjáð þig um
það þannig að það fari ekkert á milli mála. Það kastaði þá fyrst tólfunum þegar
þú brást við þeirri gagnrýni að þú hefðir hagað þér kjánalega í viðtali við
Gísla Martein í sjónvarpsþætti með því að segja að hann hefði gert það líka.
Gísli Marteinn er bara lítill strákur sem vinnur við sjónvarp en þú ert
forsætisráðherra lýðveldisins?“
Stríðsyfirlýsing gegn samstarfsflokknum
En
ástæða bréfs Kára á sem fyrr rætur að rekja til heilbrigðismála, og mesta
púðrið í því fer að ræða tillögu sem Sigmundur Davíð kynnti fyrir viku síðan um
að nýr Landsspítali verði byggður við Vífilsstaði í Garðabæ í stað þess að hann
rísi við Hringbraut, líkt og nú er unnið að. Kári segir að það sem mestu máli
skipti sé að reisa hús yfir spítalann sem fyrst. „Það
er akkúrat hér sem glæpur þinn liggur, Sigmundur. Þú lagðir fram
Vífilsstaðatillöguna án þess að ræða hana við heilbrigðismálaráðherra sem fer
með þau mál er lúta að Landspítalanum eða fjármálaráðherra sem hafði yfirumsjón
með smíð fjárlaga sem kveða á um fé til Hringbrautarlausnarinnar. Það er með
öllu fordæmislaust að forsætisráðherra í samsteypustjórn gangi opinberlega gegn
mikilvægum ákvörðunum fagráðherra úr samstarfsflokki hans í ríkisstjórn. Það má
leiða að því rök að þar með sért þú genginn í lið með stjórnarandstöðunni og
sitjir beggja vegna borðs, bæði sem forsætisráðherra og
stjórnarandstöðuþingmaður.
Bjarni
Ben og Kristján Þór fréttu af tillögunni þinni með því að lesa um hana í
dagblöðum. Tillagan, sem í efni sínu var í það minnsta allt í lagi, var sett
fram sem nokkurs konar stríðyfirlýsing gegn samstarfsflokki þínum í
ríkisstjórninni og þeim aðilum sem veita heilbrigðismálum forystu í landinu.
Sá eini úr þeirra hópi sem ég veit að þú talaðir við áður en þú hentir
sprengjunni var landlæknir sem ráðlagði þér gegn þessu. Það er líklegt að með
þessu hafir þú aukið á þá erfiðleika sem við verðum að yfirstíga til þess að
húsið rísi fljótt. Hinn möguleikinn er sá að menn ákveði einfaldlega að hunsa
þig í þessu máli, forsætisráðherrann sjálfan, og haldi áfram eins og ekkert
hafi í skorist. Það væri býsna auðmýkjandi fyrir ungan forsætisráðherra.“
Ætti að spila Matador við sjálfan sig á Flórída
Kári segir síðan að honum skiljist að Sigmundur Davíð tali sjaldan við nokkurn mann, ekki einu sinni eigin þingmenn og greinilega ekki samráðherra sína. „Sagan segir líka að þú sitjir löngum stundum einn í myrku herbergi í Alþingishúsinu. Það getur heldur ekki talist gott vegna þess að myrkrið er ekki bara fjarvera ljóss heldur líka eitthvað vont sem leggst á sálina og sviptir hana kærleika sem er eitt af þeim tækjum sem forsætisráðherra verður að nota í sínu daglega starfi.“
Sú meinta tilhneiging Sigmundar Davíðs að einangra sig hafi gert það að verkum að gárungarnir séu farnir að segja eftirfarandi brandara: „Á fyrstu tveimur árum þínum í forsætisráðherrastóli kvartaði stjórnarandstaðan oft undan fjarveru þinni úr þingsal og því að þú væri gjarnan í fríi og það næðist ekki í þig. Sannist hér hið fornkveðna að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Nú þjáist nefnilega ekki bara stjórnarandstaðan og stjórnin heldur þjóðin öll af skorti á fjarveru þinni. Þú værir best geymdur annars staðar og við aðra iðju eins og til dæmis á Flórída að fá útrás fyrir áhuga þinn á skipulagsmálum með því að spila Matador við sjálfan þig. Þetta er ekki nema svona rétt mátulega fyndið en segir svolítið um það hvers konar augum samfélagið lítur þig þessa dagana.“
Í niðurlagi bréfsins ráðleggur Kári Sigmundi Davíð að fara í
sjósund og finnast gaman að vera forsætisráðherra.