Íslendingur er meðal þeirra sem særðust í sjálfsmorðsprengjuárás í Istanbúl í Tyrklandi í morgun. Fimm eru látnir eftir árásina og 36 eru sárir, þar af 7 alvarlega. Ekki er vitað hversu alvarlega Íslendingurinn er særður, og ekki er vitað hver hann er. Utanríkisráðuneytið vinnur að því að fá frekari upplýsingar um málið, samkvæmt RÚV.
Sprengjan sprakk við fjölfarna verslunargötu, Istiklal-götu, í miðborginni í morgun. Gatan er löng götugata þar sem er fjöldi verslana, kaffihúsa, leikhúsa og ræðismannsskrifstofa.
12 þeirra sem særðust eru erlendir ríkisborgarar, og greint var frá þjóðernum þeirra í fjölmiðlum. Skömmu síðar höfðu tyrknesk stjórnvöld samband við utanríkisráðuneytið til að greina frá því að Íslendingur væri þeirra á meðal.