Einstaka þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa rætt um að leggja fram vantrausttillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna upplýsinga sem fram komu í síðustu viku. Þá var greint frá því að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, ætti aflandsfélag skráð á Tortóla-eyju og geymdi þar eignir upp á um 1,2 milljarð króna. Sömuleiðis var greint frá því að hún hefði átt kröfur í bú allra stóru föllnu bankanna upp á samtals 523 milljónir króna. Miðað við væntar endurheimtir kröfuhafa er líklegt að félag Önnu Sigurlaugar fái yfir 120 milljónir króna vegna krafna sinna.
Það hefur verið harðlega gagnrýnt að forsætisráðherra hafi ekki greint frá tilurð félagsins fyrr en nú, en það gerðist í kjölfar þess að Jóhannes Kr. Kristjánsson, forsvarsmaður Reykjavík Media ehf., hafði samband við Sigmund Davíð. Jóhannes Kr. og alþjóðlegu rannsóknarblaðamennskusamstökin ICIJ, þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung og fleiri erlendir fjölmiðlar hafa unnið saman að fréttaumfjöllun um eignir Íslendinga í erlendum skattaskjólum undanfarna mánuði. Umfjöllun þeirra verður birt á næstu vikum.
Í Fréttablaðinu í dag segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, að vantrausttillögu hafi verið velt upp í samræðum. Staðan sé „einhvern veginn alveg fordæmalaus" og það komi vel til greina að leggja fram vantrausttillögu. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tekur sama undir með Óttarri. „Það hefur ekkert verið rætt formlega innan þingflokks VG en þetta hefur verið til umræðu hjá einstaka þingmönnum.“ Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að hann hafi heyrt af vangaveltum um vantrausttillögu en að hún hafi ekki verið rædd innan þingflokks Samfylkingarinnar.
Í fréttum RÚV í gær var greint frá því að vantrausttillaga á forsætisráðherra hefði verið rædd innan allra stjórnarandstöðuflokkanna. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði við RÚV að óhugsandi væri að Sigmundur Davíð sæti áfram sem forsætisráðherra í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hefðu fram.
Stjórnarþingmenn hafa einnig gagnrýnt forsætisráðherra harðlega. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði að í Vikulokunum á Rás 1 á laugardag og Ásmundur Friðriksson, samflokksmaður hans, sagði í fréttum RÚV í gær að hann vildi að Sigmundur Davíð myndi stíga fram og skýra mál sitt sem fyrst. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafði áður sagt að hann hafi ekki vitað af því að eiginkona forsætisráðherra ætti félag skrá á Tortóla-eyju sem ætti háar kröfur í slitabú föllnu bankanna. Heimildir Kjarnans herma að mikil óánægja sé með þá stöðu sem er komin upp hjá mörgum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.