Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kallar Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, „hjárænulegan Sjálfstæðisþingmann sem er í vandræðum með sjálfsmynd sína“ og segir það tíðindi að Sjálfstæðisþingmaður láti vinstrið „siga sér eins og rakka vegna einhverrar minnimáttakenndar“. Þetta kemur fram í grein sem Þorsteinn birtir á Vísi í dag.
Tilefni skrifa hans er umræða um aflandseignir eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og þá staðreynd að hún á kröfur í slitabú föllnu bankanna upp á rúman hálfan milljarð króna. Þorsteinn segir ófrægingarmenn ekki þola að Sigmundur Davíð hafi alla kosti sem þá skortir. Hann eigi framsýni, kjark og dug. Niðurrifið og hælbitin efli hins vegar Sigmund Davíð í hverri raun. Ógæfufólk í pólitík þurfi þó að gaumgæfa framgöngu sína.
Vilhjálmur var gestur í Vikulokunum á Rás 1 á laugardag. Þar sagði hann það vera mjög óþægilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að standa andspænis málinu. Sigmundur Davíð hafi setið beggja vegna borðsins í tengslum við vinnu við uppgjör föllnu bankanna. „Það er eins og menn skilji ekki vanhæfi og hagsmunatengsl,“ sagði hann. Í ýmsum málum sé hangið á formsatriðum eins og að lög hafi ekki verið brotin. Alltaf eigi að upplýsa um hagsmunatengsl. „Auðvitað rýrir þetta traust mitt á hinum flokknum í þessu samstarfi.“
Forsætisráðherra hefur alla kosti sem hælbítanna skortir
Þorsteini blöskrar
umræðan sem nú fer fram um eignir eiginkonu forsætisráðherra og segir hana vera
nýjum í íslenskri stjórnmálaumræðu. „Í þrjú ár hafa nokkrir stjórnmálamenn sem voru
til í að leggja klyfjar á íslenska þjóð til frambúðar lagt sig fram um að
ófrægja forsætisráðherra sem leiddi flokk sinn til sigurs á grundvelli loforða
sem síðan hafa verið efnd hvert af öðru.
M.a. kom
forsætisráðherra ekki bara í veg fyrir að klyfjar ófrægingarmanna yrðu lagðir á
þjóðina heldur leystu stöðugleikasamningar svo vel að eftir er tekið.
Reyndar svo vel að Ísland hefur ekki staðið jafnvel síðan á síldarárunum upp úr
miðri síðustu öld.[...] Ófrægingarmönnum virðast sárna þessi staðreynd kannski
vegna þess að þeir höfðu ekki kjark og þor til að ráðast til atlögu við
kröfuhafa. Ófrægingarmennirnir þola ekki að forsætisráðherra á alla kosti
sem þá skortir. Hann á framsýni kjark og dug sem þeir eiga ekki.
Þess vegna hefur þetta ógæfufólk hamast á forsætisráðherra hvern dag í þrjú ár
en auðvitað án árangurs því niðurrifið og hælbitin efla Sigmund Davíð í hverri
raun. Hvað tekur ófrægingarliðið þá til bragðs? Jú, það skrifar
nýjan kafla í lágkúruumræðu sinni með því að beina spjótum sínum að eiginkonu
forsætisráðherra vegna þess að hún á eignir. Og hvað haldiði nema þau fái
ekki í lið með sér hjárænulegan Sjálfstæðisþingmann sem er í vandræðum með
sjálfsmynd sína. Það eru tíðindi að Sjálfstæðisþingmaður láti vinstrið
siga sér eins og rakka vegna einhverrar minnimáttakenndar.“