Hópur starfsmanna Landsbankans hafa hafið undirskriftasöfnun til stuðnings Steinþóri Pálssyni, bankastjóra bankans. Heimildir Kjarnans herma að söfnunin eigi rætur sínar að rekja til almennra starfsmanna hjá Landsbankanum sem vilja með þessu sýna samstöðu með bankastjóranum, en nýverið greindi fráfarandi bankaráð Landsbankans frá því að Bankasýsla ríkisins hefði farið fram á afsögn hans.
Öll spjót hafa staðið að Steinþóri undanfarna mánuði vegna Borgunarmálsins svokallaða. Það snýst um sölu á 31,2 prósent hlut Landsbankans í greiðslukortafyrirtækinu Borgun í nóvember 2014 á 2,2 milljarða króna. Kaupendur voru hópur stjórnenda Borgunar og meðfjárfestar þeirra. Salan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa farið fram bakvið luktar dyr í stað þess að söluferlið væri opið og gagnsætt. Auk þess hefur virði Borgunar margfaldast síðan að hluturinn var seldur, sérstaklega vegna þess að hlutdeild fyrirtækisins í hagnaði vegna sölu á Visa Europe hleypur á milljörðum króna.
Sögðu Bankasýslu ríkisins vilja reka Steinþór
Bankasýsla ríkisins birti nýverið ítarlegt bréf sem það sendi bankaráði Landsbankans vegna Borgunarmálsins. Þar hafnaði hún nær öllum röksemdarfærslum sem Landsbankinn hefur teflt fram sér til varnar í Borgunarmálinu hafnað. Þar var enn fremur sagt að svör Landsbankans við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framgöngu hans hafi „ekki verið sannfærandi“.
Í kjölfarið sendu fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans frá sér tilkynningu þar sem þeir sögðust ekki ætla að gefa kost á sér til endurkjörs á næsta aðalfundi bankans, sem haldinn verður 14. apríl næstkomandi. Á meðal þeirra er Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðsins. Ástæðan væri Borgunarmálið. Í yfirlýsingunni sagði m.a. að stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins hafi boðað formann bankaráðs Landsbankans á fund áður en bréf stofnunarinnar vegna Borgunarmálsins var sent til Landsbankans föstudaginn 11. mars. Á þeim fundi, sem forstjóri Bankasýslunnar hafi verið viðstaddur var þeim skilaboðum komið á framfæri að „það eina sem dugi til sé að bankastjóranum verði sagt upp störfum auk þess sem formaður og varaformaður víki. Sú afstaða stjórnar Bankasýslunnar fékkst síðar staðfest. Þarna gengur Bankasýslan skrefi of langt. Það er hlutverk bankaráðs og Fjármálaeftirlitsins að meta hæfi bankastjórans. Við munum ekki taka þátt í skollaleik sem hvorki samrýmist meginreglum félagaréttar né góðum stjórnarháttum. Steinþór Pálsson er stefnufastur og öflugur stjórnandi; hreinn og beinn. Hann er leiðtogi bankans og hefur staðið sig með afbrigðum vel. Við teljum farsælast að hann stjórni bankanum áfram til góðra verka."
Steinþór sendi sjálfur frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki ætla að hætta. Hann muni sem fyrr starfa með hagsmuni bankans að leiðarljósi.
Bankasýslan hefur síðar hafnað því að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.