Talið er að heildarfjöldi látinna í Brussel sé kominn í 23, eftir sprengjuárásir í Brussel í morgun. Það eru þó enn óstaðfestar fréttir. Fjölmiðillinn VTM hefur sagt að tíu séu látnir eftir sprengingu á neðanjarðarlestarstöð, en VRT segir að enginn hafi látist en margir séu særðir.
Búið er að staðfesta að sprengjur sem sprungu á Zaventem flugvellinum í Brussel á háannatíma í morgun voru sjálfsmorðsárásir. Belgískir fjölmiðlar segja að allt að þrettán séu látnir og tugir alvarlega særðir eftir sprengingarnar.
Um klukkustund síðar bárust svo fregnir af því að sprengja hefði sprungið í neðanjarðarlestarstöðinni Maelbeek í borginni. Maelbeek-stöðin og hverfið eru mjög nálægt stórum byggingum Evrópusambandsins. Lestin var að fara frá Maelbeek stöðinni að Schuman stöðinni þegar sprengingin varð, að sögn fólks sem var um borð í lestinni.
Bæði flugvellinum og neðanjarðarlestarkerfinu öllu hefur verið lokað og borgin er nánast lokuð, að sögn Hallgríms Oddssonar, fréttaritara Kjarnans í Brussel.
Búið er að hækka viðbúnaðarstig í Brussel vegna árásanna. Öll söfn verða lokuð í dag og fólk er beðið um að halda sig heima við eða innan dyra ef það er í vinnu.
1 more blast in #Brussels subway. So far: 2 explosions in the airport & 2 in the subway. #brusselslockdown. pic.twitter.com/41v8hw0QdC
— Alexey Khlebnikov (@AleksKhlebnikov) March 22, 2016
Íslendingar í Brussel eru beðnir um að láta vita af sér til fjölskyldumeðlima. Ef þörf er á aðstoð hringið í borgaraþjónustu +354 545 9900
— Icelandic Mission EU (@IcelandMission) March 22, 2016
Hér að neðan er hægt að horfa á útsendingu Sky News frá Brussel.
Fréttin hefur verið uppfærð. Fréttir um dauðsföll eru mjög á reiki.