Þræla- og framkvæmdakóngurinn

Í Tervuren skammt frá Brussel stendur glæsilegt hús. Innandyra má hinsvegar sjá átakanlega sögu um undirokun, þrældóm og grimmdarverk þjóðarleiðtoga sem einskis sveifst til að láta stórveldisdrauma sína rætast.

Stytta af Leopold II í Brussel. Myndin var tekin þann 10. júní 2020.
Stytta af Leopold II í Brussel. Myndin var tekin þann 10. júní 2020.
Auglýsing

Belgía er ungt ríki, varð til árið 1831. Nafnið Belgía er þó mun eldra en Júlíus Cesar sem hertók landið á 1. öld fyrir Krist kallaði það Gallica Belgica. Þetta nafn hvarf þó á miðöldum en þegar Belgía varð sjálfstætt ríki árið 1831 varð hið opinbera heiti þess Konungdæmið Belgía. 

Tildrög þess að Belgía varð sjálfstætt ríki eru flókin og margþætt en sú saga verður ekki rakin hér. Þegar ákvörðunin um að Belgía skyldi verða konungsríki þurfti að finna þjóðhöfðingja. Sú leit endaði með því að þýskur prins „tók starfið að sér“. Sá hét Leopold og eftir að hann var orðinn konungur nefndur Leopold I.  Það var klókt af Belgum að fá þennan þýska prins sem konung, hann hafði verið giftur breskri prinsessu – hún lést af barnsförum – og var þess vegna tengdur Bretum. Tengsl hans við Breta og Þjóðverja urðu til þess að Frakkar, sem höfðu mikinn áhuga á að ná Belgíu undir sig, þorðu ekki að hafast að í þeim efnum.

Auglýsing

Leopold II

Leopold I lést í desember 1865 og sonur hans, Leopold II erfði krúnuna. Hann var fæddur 1835, móðirin var seinni kona föður hans, Louise of Orléans. Frönsk eins og nafnið gefur til kynna. 

Leopold II var mikill framkvæmdamaður. Það kom sér vel, enda í mörg horn að líta í ungu konungsríki. Margar þeirra bygginga sem reistar voru í hans tíð eru enn í dag með þeim glæsilegustu í landinu og sýna stórhug konungs.  

Margir Belgar vilja gjarna muna þessa hlið á kónginum og kalla hann gjarna, með réttu, framkvæmdakónginn. 

Leopold II lagði ríka áherslu á að efla varnir landsins, óttaðist alla tíð að nágrannaríkin, Frakkland og Þýskaland myndu sæta færis og leggja „litlu Belgíu“ eins og hann komst að orði, undir sig. Sá ótti reyndist þó ástæðulaus.

Leopold II við ríkistöku þann 17. desember árið1865. Mynd: Wiki Commons

Afríka og Stanley

Þær fjölmörgu framkvæmdir sem Leopold II réðst í kostuðu mikið fé. Hann hafði veitt því athygli að mörg Evrópuríki beindu sjónum sínum að Afríku og ákvað að Belgía skyldi bætast í hóp þeirra. 

Árið 1876 hélt Leopold II ráðstefnu í Brussel. Þangað mættu fulltrúar margra ríkja og sömuleiðis vísindamenn og landkönnuðir. Kóngurinn ræddi þar um nauðsyn þess að Afríkumenn færðust nær nútímanum, í viðskiptum og menningu. Hann vildi gjarna leggja sitt af mörkum í þeim efnum. Ráðstefnugestum leist vel á þessar hugmyndir, vissu ekki að hvað að baki bjó. 

Árið 1878 samdi Leopold II við landkönnuðinn Henry Morton Stanley um að fara í leiðangur til Afríku, sem sérlegur fulltrúi sinn. Stanley þekkti vel til víða í Afríku, hann hafði verið blaðamaður og ferðast um mörg svæði í þessari stóru heimsálfu. Árið 1871 hafði hann, eftir tveggja ára leit, uppi á landkönnuðinum og trúboðanum David Livingstone, sem hafði farið til Afríku en enginn vissi hvar var niðurkominn. Samkvæmt frásögn Stanleys ávarpaði hann Livingstone með orðum sem urðu víðsfræg: „Doctor Livingstone, I presume.“

Henry Morton Stanley horfir út um lestarglugga. Mynd: Wiki Commons

Fríríkið Kongó

Afríkuleiðangur Stanleys hófst árið 1879 og stóð í fimm ár. Þegar honum lauk hafði hann, fyrir hönd Leopolds konungs undirritað fjöldann allan af samningum um afnot af landi, lagt vegi og skipulagt verslunarstaði (trading posts) meðfram Kongó fljóti – eins og það heitir í dag – en það er næst lengsta fljót Afríku, um það bil 4400 kílómetra langt. 

Ríkisstjórn Belgíu hafði efasemdir varðandi fyrirætlanir kóngsins um þessa risastóru nýlendu en það breytti engu. Kónginum tókst að fá stjórnir Bandaríkjanna og stærstu ríkja Evrópu til að samþykkja yfirráð Belga yfir svæði sem nær yfir 2.4 milljónir ferkílómetra – en Belgía er 31 þúsund ferkílómetrar. Leopold II bjó þannig um hnútana að að þessi nýlenda sem hann nefndi État Indépendant du Congo, Fríríkið Kongó, yrði sín einkaeign. Þetta var árið 1885.

Fílabein og gúmmí 

Í upphafi nýlendutímabilsins beindist áhugi konungs fyrst og fremst að fílabeini. Á þessum tíma var fílabein mjög eftirsótt og fyrstu árin var það stærsta tekjulindin. Það stóð hinsvegar ekki lengi því um og uppúr 1890 voru vísindamenn búnir að uppgötva nýtt undraefni – eins og það var gjarna nefnt – gúmmí. Bílaöld var að hefjast og gúmmíið var þá – eins og í dag – besta efnið í hjólbarðana. 

Í stuttu máli sagt: það varð strax mikil eftirspurn eftir þessu nýja efni sem unnið var úr trjákvoðu. Í nýlendu Belgíukonungs voru býsnin öll af gúmmítrjám, eins og þau voru kölluð eftir að efnið var uppgötvað. Og Leopold II sá strax hvílík auðlind þetta myndi reynast. Fjölmennt herlið hans neyddi heimamenn í Fríríkinu Kongó til að vinna stærstan hluta sólarhringsins. 

Grimmilegar aðfarir

Ótal sögur eru til af grimmd hermanna konungsins, sem hikuðu ekki við að skjóta alla þá sem sýndu mótþróa eða slógu slöku við, að mati hermannanna. Fræðimenn telja að árið 1880 hafi íbúar Kongó verið um það bil 20 milljónir. 40 árum síðar, 1920 hafi landsmönnum fækkað um 50 prósent, 10 milljónir. Milljónir dóu úr hungri, fæðingum fækkaði og svo féll gríðarlegur fjöldi fyrir byssukúlum hermanna. 

Aðrar nýlenduþjóðir, Frakkar, Þjóðverjar og Portúgalar tóku upp sömu vinnubrögð og Belgar, með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa í nýlendum þeirra. 

Trúboði með einum þolanda grimmdarverkanna sirka 1890 til 1910 Mynd: Wiki Commons

Fríríkið Kongó varð Belgíska Kongó

Árið 1908 neyddist Leopold II til að afhenda belgíska ríkinu nýlenduna, sem þá fékk nafnið Belgíska Kongó, og bar það nafn til árins 1960, þegar nýlendutímabilinu lauk. Fyrir þessari breytingu árið 1908 voru tvær ástæður: kóngur var kominn í fjárþröng, vegna mikilla framkvæmda heima fyrir og sömuleiðis var hann orðinn óvinsæll meðal landa sinna. 

Þær óvinsældir tengdust lítt málefnum Kongó. Kóngurinn talaði ekki flæmsku, annað aðalatungmál Belga, hann eyddi vetrunum í blíðunni á frönsku Miðjarðarhafsströndinni. Áhugi hans á ungum konum var litinn hornauga af löndum hans og þegar hann var 65 ára tók hann upp samband við unga fyrrverandi vændiskonu sem ól honum tvö börn. Kóngurinn var mikið fyrir að láta á sér bera og sá sjálfur til þess að af honum voru reistar margar styttur víðsvegar í Belgíu.

Fríríkið Kongó í kringum 1890 Mynd: Wiki Commons

Safnið í Tervuren og mannadýragarðurinn

Árið 1897 haldin svonefnd Heimssýning í Brussel. Hana sóttu nær átta milljónir gesta og 27 ríki tóku þátt í sýningunni. Leopold II sá þarna kjörið tækifæri til að kynna nýlenduna „sína“ fyrir umheiminum og sett var upp sýning í nýbyggðu stóru glæsihýsi í Tervuren, fyrir utan Brussel. Mesta athygli vakti afrískt þorp sem kóngurinn hafði látið gera í garðinum við safnið. Hann hafði ennfremur látið flytja þangað 267 kongóbúa sem réru um í síkjum á svæðinu. Þetta var svo endurtekið á heimssýningunni árið 1958, tveimur árum áður en nýlendutímabilinu lauk, en var þá gagnrýnt harðlega.

Safnið hét upphaflega Belgíska Kongósafnið, en árið 1952 var nafninu breytt í Konunglega safnið um Belgíska Kongó. Árið 1960 þegar nýlendutímabilinu lauk fékk safnið þriðja nafnið og heitir nú Konunglega Mið-Afríkusafnið. 

Safninu var lokað árið 2013, þá hafði nánast engu verið breytt frá því  1950. Árið 2018 var svo opnað á ný, eftir gagngerar endurbætur. Safnstjórinn sagði í viðtali fyrir skömmu að með breytingunni væri ætlunin að leggja áherslu á Afríku nútímans, án þess að gleyma fortíðinni. Safnstjórinn sagði að flestir Belgar hefðu, þangað til fyrir um 20 árum, verið sannfærðir um að nýlendutímabilið hefði í alla staði verið gott. Þeir hefðu lagt vegi, byggt sjúkrahús og séð til þess að almenningur í Kongó hefði notið skólagöngu. „Nú viðurkenna allir að þannig var það ekki, nú tala margir um nýlendutímabilið sem svartan blett í sögu Belgíu.“

Skvett hefur verið málningu á styttur af Leopold II í Brussel á undanförnum vikum. Mynd: EPA

Vilja stytturnar burt      

Eins og áður var nefnt eru fjölmargar styttur af Leopold II víðsvegar í Belgíu. Undanfarið hafa heyrst háværar raddir sem krefjast þess að þessar styttur verði fjarlægðar, í ljós sögunnar. Ein stytta hefur verið fjarlægð, en annarsstaðar hefur kóngurinn, steyptur í brons, hinsvegar fengið á sig marga málningargusuna. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Benedikt hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Miklar sveiiflur hafa verið á virði rafmyntarinnar Bitcoin síðasta sólarhringinn.
Kínverjar snúa baki við Bitcoin og verðið fellur
Verð rafmyntarinnar Bitcoin hefur lækkað umtalsvert á undanförnum dögum en náði sér aðeins á strik síðdegis í dag. Kínverjar hafa reynt að stemma stigu við viðskiptum með myntina þar í landi og nýlega var fjölda gagnavera sem grafa eftir myntinni lokað.
Kjarninn 22. júní 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka hringir hér inn fyrstu viðskipti í Íslandsbanka
73 prósent af viðskiptunum voru í Íslandsbanka
Alls námu viðskipti með hlutabréf Íslandsbanka 5,4 milljörðum króna eftir fyrsta viðskiptadag þeirra í Kauphöllinni í dag. Verð bréfanna er nú fimmtungi hærra en útboðsgengi þeirra.
Kjarninn 22. júní 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar