Guy Sablon, talsmaður neðanjarðarlestarkerfisins í Brussel, höfuðborg Belgíu, segir að minnst 15 séu látnir eftir hryðjuverkaárás í Maelbeek neðanjarðarlestarstöðinni í Evrópuhverfinu í morgun. AP fréttastofan greinir frá. Áður var talið að tíu hefðu látist í þeirri sprengingu. Þrettán létust í tveimur sprengingum á Zaventem flugvellinum klukkustund áður, á háannatíma. Alls eru þá 28 látnir í árásunum, samkvæmt erlendum fjölmiðlum, en afar misvísandi fregnir eru þó af tölu látinna. Margir tugir eru særðir. Samkvæmt Sky News voru sprengingarnar á flugvellinum við innritunarborð American Airlines.
Fjöldi Íslendinga í Brussel hefur merkt sig örugga á samfélagsmiðlum í morgun. Utanríkisráðuneytið beinir því til fólks í Brussel að nota frekar samfélagsmiðla og SMS til að láta vita af sér þar sem gríðarlegt álag er á símkerfinu.
Bæði flugvellinum og neðanjarðarlestarkerfinu öllu hefur verið lokað og borgin er nánast lokuð, að sögn Hallgríms Oddssonar, fréttaritara Kjarnans í Brussel. Höfuðstöðvar NATO eru einnig lokaðar, sem og nær allar aðrar opinberar byggingar.
Búið er að hækka viðbúnaðarstig í Brussel vegna árásanna. Öll söfn verða lokuð í dag og fólk er beðið um að halda sig heima við eða innan dyra ef það er í vinnu.
Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér enn sem komið er. Fyrir fjórum dögum handtók lögreglan í Belgíu Salah Abdeslam, manninn sem skipulagði hryðjuverkaárásirnar í París í fyrra.