Að minnsta kosti 34 eru látnir og 200 særðir eftir hryðjuverkaárásirnar í Brussel í morgun. Forsætisráðherra Belgíu varar við frekari árásum. Útgöngubanni hefur verið lýst yfir í borginni og eru allar samgöngur og opinberar byggingar lokaðar.
Tvær sprengingar, sem taldar eru hafa verið sjálfsmorðssprengjuárásir, urðu í brottfararsal Zavantem flugvellinum í Brussel um klukkan 8 að staðartíma í morgun, nálægt innritunarborði American Airlines. 14 létust í þeirri árás og um hundrað særðust. Stuttu síðar var þriðja sprengjan í neðanjarðarlestakerfi Brussel, þar sem að minnsta kosti 20 létust og yfir hundrað særðust, þar af margir lífshættulega.
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, segir daginn myrka stund fyrir belgísku þjóðina. Hann biðlar til fólks að sýna stillingu og samstöðu á þessum erfiðu tímum.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að þjóðir heims þurfi að standa saman með belgísku þjóðinni þar sem árásir geta gerst hvar sem er.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir á fundi í Kúbu, að hugur sinn sé hjá belgísku þjóðinni. Hann segir Bandaríkin, ásamt öðrum þjóðum heims, munu bregðast við árásunum.
Fréttaþulur Sky sjónvarpsstöðvarinnar segir að „það sem fólk óttaðist hefur gerst.” Vitni lýsa fyrir Sky að öskur á arabísku hafi heyrst rétt fyrir sprengingarnar á flugvellinum.
Húsleitir eru hafnar í Brussel vegna hryðjuverkanna. Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér enn sem komið er. Fyrir fjórum dögum handtók lögreglan í Belgíu Salah Abdeslam, manninn sem skipulagði hryðjuverkaárásirnar í París í fyrra.
Fjöldi Íslendinga í Brussel hefur merkt sig „örugga” á samfélagsmiðlum í morgun. Utanríkisráðuneytið beinir því til fólks í Brussel að nota frekar samfélagsmiðla og SMS til að láta vita af sér þar sem gríðarlegt álag er á símkerfinu. Öll borgin er nánast lokuð, að sögn Hallgríms Oddssonar, fréttaritara Kjarnans í Brussel.