Belgíska sjónvarpsstöðin RTBF hefur greint frá því að tveir þeirra sem frömdu sjálfsmorðsárás á flugvellinum í Brussel í gær hafi verið bræðurnir Khalid og Ibrahim el-Bakraoui. Bræðurnir eru belgískir ríkisborgarar og góðkunningjar lögreglu þar í landi. Þeir voru enn fremur taldir hafa skýr tengsl við hryðjuverkin sem framin voru í París í nóvember í fyrra. Ef þeir sem frömdu voðaverkin í Brussel í gær eru hluti af sömu sellu og þeir sem réðust á París í fyrra þá mun það velta upp mjög alvarlegum spurningum um frammistöðu lögreglu og leyniþjónusta landanna tveggja, enda voru bræðurnir báðir eftirlýstir vegna mögulegra tengsla við hryðjuverk. The Guardian segir frá.
Þá hefur verið greint frá því að árásarmaðurinn sem tók þátt í árásinni á flugvöllinn í Brussel, en leikur enn lausum hala, sé talinn vera Najim Laachraoui. Hann var þegar eftirlýstur af lögreglunni í Belgíu eftir að erfðaefni hans fannst í íbúðum sem rannsakaðar voru vegna árásanna í París í fyrra. Eftirlitsmyndavélar náðu mynd af manni á flugvellinum í Brussel í gærmorgun sem þykir mjög líkur Laachraoui.
Tvær sprengingar, sem taldar eru hafa verið sjálfsmorðssprengjuárásir, urðu í brottfararsal Zavantem flugvellinum í Brussel um klukkan 8 að staðartíma í morgun, nálægt innritunarborði American Airlines. Stuttu síðar var þriðja sprengjan í neðanjarðarlestakerfi Brussel. Nýjustu fregnir herma að 31 hafi látist og um 230 manns slasast í árásunum í Brussel í gær.
Annar bræðranna sem borin hafa verið kennsl á leigði íbúð í Forest, í suðvestur hluta Brussel, sem lögreglan réðst til inngöngu í á þriðjudag í síðustu viku, nákvæmlega einni viku áður en hryðjuverkin í Brussel voru framin. Salah Abdeslam, einn höfuðpaura Parísarárásanna sem var handtekinn nýverið, hafði dvalið í íbúðinni. Við húsleit fundust skotvopn, fáni Íslamska ríkisins (ISIS) og einn meðlimur þeirrar sellu sem skipulagði Parísarárásirnar, Mohamed Belkaïd frá Alsír, var skotinn til bana af leyniskyttu lögreglunnar. Annar el-Bakraoui bræðranna leigði einnig íbúð sem tveir árásarmannanna sem frömdu hryðjuverkin í París hittust áður en þeir hófu sína hinstu ferð í nóvember, sem leiddi til árása sem drápu 130 manns. Íbúðin var í Charleroi í Belgíu og mennirnir tveir hétu Abdelhamid Abaaoud, meintur höfuðpaur árásanna, og Bilal Hadfi, einn þeirra sem sprengdi sig í loft upp fyrir utan Stade de France völlinn. Þá er talið að annar el-Bakroui bróðirinn hafi séð Parísarárásarmönnunum fyrir skotfærum og vopnum.