Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að honum hafi ekki borið nein skylda, hvorki formleg né siðferðisleg, til að greina frá því að eiginkona hans ætti kröfur í slitabú föllnu bankanna. Hann íhugaði aldrei að segja af sér vegna málsins og telur afskaplega undarlegt að fara í slíkar vangaveltur.
Forsætisráðherra telur heldur ekki að hagsmunaskráning þingmanna hafi ekki krafist þess af honum að upplýsa um aflandseigufélag eiginkonu sinnar né að ákvörðun hans um að upplýsa ekki um það sé ekki í andstöðu við siðareglur ríkisstjórnarinnar, sem settar hafi verið af síðustu ríkisstjórn og eru enn ekki staðfestar af þeirri sem nú situr. Sigmundur Davíð segist byggja siðferði sitt á lögum og reglum og á því að gera samfélaginu sem mest gagn. Þegar hann hafi verið ásakaður um að vera lýðskrumari fyrir síðustu kosningar fyrir að hafa talað digurbarklega um að ganga hart fram gegn kröfuhöfum föllnu bankanna hafi verið freistandi að greina frá því að hann væri tilbýinn að ganga á hagsmuni eiginkonu sinnar. „Mér fannst ekki siðferðislega rétt að blanda henni í þessa umræðu til að upphefja sjálfan mig.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Sigmund Davíð í Fréttablaðinu í dag. Þar svarar hann í fyrsta sinn spurningum um aflandsfélag í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu sinnar, og eign hennar á kröfum í slitabú föllnu bankanna. Sigmundur Davíð hefur ekki viljað svara spurningum annarra fjölmiðla um málið.
Í Fréttablaðinu er Sigmundur Davíð spurður hvað hafi ráðið því að eiginkona hans hafi tilkynnt um aflandsfélagið á þeim tíma sem hún gerði það, á miðvikudag í síðustu viku. Hvort að það hafi verið vegna þess að fjölmiðlar hefðu verið að grafast fyrir um málið eða hvort það hafi tengst því að siðareglur þingmanna voru samþykktar í þinginu daginn eftir. Hann svarar því ekki beint hvort þessi atriði hafi ráðið úrslitum, en staðfestir að „einhver fjölmiðillinn hafði verið að spyrjast fyrir um þetta, en það var bara framhald af þessari löngu sögu.“ Forsætisráðherra segir að hann hafi verið viðstaddur þegar eiginkona hans skrifaði stöðuuppfærsluna á Facebook þar sem hún greindi frá eignarhaldinu – það hafi gerst í eldhúsinu heima hjá þeim – en segir hana hafa skrifað yfirlýsinguna eina.
Sigmundur Davíð segist alltaf hafa litið svo á að allir Íslendingar séu kröfuhafar, meðal annars vegna þess að lífeyrissjóðir landsins áttu miklar kröfur auk Seðlabanka Íslands. „Í þessu máli hefur enginn talið ástæðu til að gera sérstaklega grein fyrir hagsmunum sínum. Þó voru þingmenn og fyrrverandi ráðherrar sem eiga gríðarlegan uppsafnaðan lífeyri sem eru líka hagsmunir í þessu máli. Þú ræðir um siðareglur, það er alveg ljóst að frá því að menn fóru að takast á við þessi stóru efnahagsmál í tengslum við hrunið að menn hafa verið að taka ákvarðanir sem hafa gífurleg áhrif. Ekki bara á hagsmuni tengdra heldur þeirra sjálfra líka. Neyðarlögin t.d. tryggðu eignir í bönkum, innistæður og peningamarkaðssjóði. Þær eignir voru tryggðar á kostnað annarra eigna, t.d. skuldabréfa. Þeir breyttu lögunum til að forgangsraða í þágu slíkra eigna. Samt sá enginn ráðherra eða þingmaður ástæðu til þess að gera grein fyrir því hversu miklar eignir hann væri að verja fyrir sig eða sína.“
Hann segir fráleitt að halda því fram að eignir eiginkonu hans hafi haft eitthvað um framgöngu hans í málum gegn kröfuhöfum föllnu bankanna að segja. Hann hafi leitt þá umræðu um að ganga hart fram gegn þeim.
Forsætisráðherra segir enn fremur að hann hafi ekki hugsað það sérstaklega að segja Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, frá eignum eiginkonu sinnar. „Ég hugsa að mér hefði þótt ankannalegt að fara að ræða fjármál eiginkonu minnar við hann. Hann hefur verið meðvitaður um það frá upphafi hvar ég stend í þessu máli. Hversu ákafur ég hef verið í að ná þessum árangri og hefur verið góður samstarfsmaður. Það hefði kannski frekar verið freistingin að nota þetta í pólitísku umræðunni þegar sótt var að manni. Með því að segja sjáiði, hérna. Þetta er svo mikilvægt að hugsanlegir peningar sem konan mín fengi með því að fara aðrar leiðir skipta engu máli. En þá hefði ég með því verið að sveifla henni fyrir framan mig þegar öll spjót stóðu á mér fyrir að vera með óraunhæfar tillögur.“ Sigmundur Davíð segir að Bjarni hafi ekki tekið því illa þegar hann greindi honum frá aflandsfélagi og kröfueign eiginkonu sinnar. Þá hafi heldur engin viðbrögð komið frá Seðlabanka Íslands vegna þess.
Sigmundur Davíð segir aðra stjórnmálamenn ekki hafa greint frá hagsmunum sínum eftir hrun þegar þeir tóku ákvarðanir. Þá sem áttu peninga í bönkum, inn á innlánsreikningum, í peningamarkaðssjóðum eða áttu mikil lífeyrisréttindi. „Í öllum þeim ákvörðunum hafa menn verið að fást við mikla hagsmuni. Í flestum tilvika hefur þetta snúist um að þeir væru að verja hagsmuni sína og fjölskyldna sinna án þess að þeir teldu ástæðu til að gera grein fyrir því. Að mínu mati var það bara eðlilegt því um leið voru þeir að verja hagsmuni samfélagsins. Hér er frekar um það að ræða að ég er að fórna hagsmunum fjölskyldunnar til þess að verja hagsmuni samfélagsins. Þessi efnahagslega endurreisn hefur verið slagur og stríð þar sem ég hugsaði allan tímann fyrst og fremst um markmiðið. Ef maður hefur tækifæri til að fara yfir allt sem maður hefur gert getur maður eflaust fundið atriði sem maður myndi breyta, en égmyndi veigra mér við því að breyta einhverju í þessari baráttu í því ljósi að það hafðist sigur. Farsæl niðurstaða náðist.“
Sigmundur Davíð segir eiginkonu sína hafa tapað á þátttöku hans í stjórnmálum, ekki grætt. Hún hafi t.d. valið að fjárfesta ekki á Íslandi fyrir auð sinn í aflandsfélaginu vegna þeirrar þátttöku og ekki farið fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem auðugum Íslendingum hafi staðið til boða. Forsætisráðherra segist undrandi á því hvernig sumir hafi gengið fram gagnvart honum í þessu máli og nefnir þar sérstaklega Björn Val Gíslason, þingmann Vinstri grænna. Hann hafi ekki fundið jafn þéttan stuðning og í þessu máli. „Ég held að það sé vegna þess að þetta fólk sem hefur unnið með mér veit að ég hef verið vakinn og sofinn í þessari baráttu og hef ekkert látið stoppa mig í henni. Mér finnst mjög ósanngjarnt að fjárhagur eiginkonu minnar sé notaður til þess að höggva í mig.“
Forsætisráðherra segist þó skilja að almenningur vilji svör og viðurkennir að hann hafi ekki verið nægilega skýr. „Ég reyndi að halda mig við prinsippið með það að tjá mig ekki um konuna mína. Spurningin mín var, ef ég vík frá þessu prinsippi og fer að tjá mig um þetta, hvar endar það? Það er endalaust hægt að gera það tortryggilegt að fólk eigi peninga, til dæmis barst fyrirspurn, eða krafa, um að konan mín birti sundurliðað yfirlit yfir eignir sínar. Maður spyr sig, hvar á þetta að enda? Ég held að flestir sem á annað borð vilja gefa manni einhvern séns, hljóti að sjá að það sem er aðalmálið er að konan mín hefur staðið skil á öllu sínu, sýnt í málinu frekar fórnfýsi en hitt, og það að þeir þingmenn og fleiri sem stóðu helst í vegi fyrir því að þessi árangur næðist, að þeir stökkvi fram. Ég held að flestir sjái í gegnum það. En svo áttar maður sig á því, að fólk er að velta alls konar hlutum fyrir sér, og þá komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri betra að fara í þetta viðtal og gera grein fyrir þessum hlutum öllum. Eins og þessu grundvallaratriði að konan mín er ekki að hagnast á því að geyma eignir sínar áfram erlendis.“
Sigmundur Davíð segist ekki efast um að Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja hann ef vantrausttillaga yrði lögð fram á hann.