Útgjöld vegna heimilisins hefjast ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 26 ára aldur. Þetta sést meðal annars á útgjöldum vegna heimilisvara, rafmagns og hita og Meniga hefur tekið saman.
IKEA er langvinsælasta heimilisvöruverslunin með um 20 þúsund viðskiptavini á mánuði. Rúmfatalagerinn er í öðru sæti og Húsasmiðjan í því þriðja. Byko er stuttu á eftir Húsasmiðjunni, með 16.700 heimsóknir á mánuði en Húsasmiðjan er með rúmlega 17.000.
Mikill munur er á aldurshópum þegar útgjöld vegna heimilisvara eru skoðaðar. Yngsti aldurshópurinn, 16 til 25 ára, eyðir rúmum 6.600 krónum á mánuði í slíkar vörur á meðan fólk á aldrinum 56 til 65 eyðir fjórfalt meira, eða um 25 þúsund krónum á mánuði. Fólk á eftirlaunaaldri eyðir tæpum 22 þúsund krónum á mánuði í heimilisvörur.
86 prósent allra þeirra sem versluðu sér heimlisvörur árið 2015 fóru í IKEA, samkvæmt hagtölum Meniga. 78 prósent fóru í Rúmfatalagerinn og 74 prósent í Húsasmiðjuna.
Úrvinnsla Meniga byggir á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. Tölurnar byggja á fjárhagslegum 16 milljón færslum 50 þúsund notenda sem veltu um 84 milljörðum króna árið 2015. Meniga greinir ekki eftir heimilum, heldur meðaltalsnoktun einstaklinga.
Kjarninn hefur einnig fjallað um skyndibitaát Íslendinga, fjarskiptamarkaðinn, áfengisneyslu og fatakaup með tölum Meniga.