Á næstu dögum verða birtar ýmsar upplýsingar um Vladimír Pútín, forseta Rússlands, vini hans og fjölskyldu í ýmsum fjölmiðlum víða um heim. Upplýsingarnar munu birtast í fjölmiðlum í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Sviss, Rússlandi og fleiri löndum. Þær snúast meðal annars um hversu mikils virði eignir Pútín eru, um tengsl hans við rússneska viðskiptajöfra, spillingu og þátttöku hans í ýmis konar kærulausu athæfi þegar hann var yngri. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá Dmitry Peskov, talsmanns stjórnvalda í Kreml í dag.
Samkvæmt
heimildum Kjarnans standa alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, fyrir
umfjölluninni. Það eru sömu samtök og vinna nú að birtingu á fréttum um eignir
Íslendinga í skattaskjólum. Á meðal þeirra sem verða til umfjöllunar í þeirri
umfjöllun er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og eiginkona hans,
en hún á félag sem skráð er á Bresku Jómfrúareyjunum.
Haft er eftir Peskov í ýmsum erlendum fjölmiðlum að um sé að ræða „fjölmiðlaárás“ á Pútín sem stjórnvöld í Moskvu hafi orðið meðvituð um eftir að ýmsar fyrirspurnir bárust frá miðlum vegna málsins. Peskov sagði að Rússland hefði lögfræðilega getu til að verja virðingu forseta landsins, hvort sem um væri að ræða innanlands eða alþjóðlega. Hægt er að lesa umfjöllun í rússneskum fjölmiðlum hér og hér.
Ætla að birta upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum
Kjarninn greindi frá því þann 17. mars að Reykjavík Media ehf., fjölmiðlafyrirtæki í eigu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, ICIJ, sem eru alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna, þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung og fleiri erlendir fjölmiðlar hafa unnið saman að fréttaumfjöllun um eignir Íslendinga í erlendum skattaskjólum undanfarna mánuði. Þær fréttir munu birtast þeim miðlum á allra næstu vikum. Þetta staðfesti Jóhannes Kr. í samtali við Kjarnann. Líkt og áður sagði eru þetta sömu samtök sem eru að vinna að birtingu umfjöllunar um Vladimír Pútín í samstarfi við ýmsa erlenda fjölmiðla.
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, opinberaði í stöðuuppfærslu á Facebook fyrir tæpum tveimur vikum að hún ætti erlent félag sem héldi utan um miklar eignir hennar. Þær eignir eru arfur sem hún fékk í kjölfar þess að fjölskyldufyrirtæki hennar seldi Toyota á Íslandi árið til til Smáeyjar ehf. fyrirtækis Magnúsar Kristinssonar, í desember 2005 fyrir 5,6 milljarða króna. Eignir forsætisráðherrahjónanna eru um 1,2 milljarðar króna samkvæmt skattframtölum og eru þær að langstærstu leyti inni í umræddu félagi. Anna Sigurlaug tiltók sérstaklega að hún hefði staðið skil á öllum sköttum hérlendis sem hún hefði átt að greiða.
Opinberun hennar kom í kjölfar þess að Jóhannes Kr. setti sig í samband við forsætisráðherra vegna þeirrar umfjöllunar sem birt verður á næstu vikum, en þar er meðal annars fjallað um félag eiginkonu hans.
Sigmundur Davíð hefur legið undir ámæli eftir að opinberunin átti sér stað, sérstaklega vegna þess að eiginkona hans á einnig kröfur í slitabú föllnu bankanna fyrir rúman hálfan milljarð króna. Stórar spurningar hafa verið settar við hæfi forsætisráðherra til að koma að áætlun um losun hafta vegna þessa. Sigmundur Davíð birti í gær spurningar og svör á bloggsíðu sinni þar sem hann svarar eigin spurningum um málið.