Tilkynnt var um það í dag að tölvuleikurinn EVE Valkyrie væri kominn út fyrir sýndvarveruleikann í Oculus Rift. Owen O'Brien, framkvæmdastjóri þróunar EVE Valkyrie fyrir sýndarveruleika, segir í færslu á vef CCP að undanfarin þrjú ár, eða frá því hann fékk í fyrsta sinn innsýn í sýndarveruleikann, hafi hann lítið gert annað en að „horfa upp og niður, fram og til baka“. En tímamótin sem fylgdu því að prófa sýndarveruleikann (VR) hafi verið einstök og teymi starfsmanna CCP í Newcastle hafi unnið mikið þrekvirki á skömmum tíma.
„Velkomin í byltinguna“ er fyrirsögnin á pistlinum, í tilefni af útgáfu leiksins.
CCP ætlar sér stóra hluti á sviði sýndarveruleika, og er skemmst að minnast stórrar fjármögnunar sem fyrirtækið fékk 12. nóvember í fyrra.
Á hlutafafundinum var tilkynnt um fjárfestingu í fyrirtækinu upp á 30 milljónir Bandaríkjadala, eða um fjóra milljarða króna, sem efla mun starfsemi þess á sviði sýndarveruleika (e: Virtual reality, VR). Fjárfestingin er leidd af stærsta framtakssjóði heims; New Enterprise Associates (NEA), með þátttöku Novator Partners, fjárfestingafélags í meirihlutaeigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, hætti í stjórninni á fundinum og tók Harry Weller, frá NEA, sæti í stjórninni.
CCP hefur tilkynnti um útgáfu á tveimur tölvuleikjum á sviði sýndarveruleika síðasta haust, EVE Valkyriesem koma út fyrir Oculus Rift á PC næsta vor og fyrir PlayStation VR á PlaySation 4 á fyrri helming næsta árs, og Gunjack sem koma mun út fyrir Gear VR búnað Samsung í fyrra.
„Við höfum fylgst með starfsemi CCP um nokkur skeið. Reynsla fyrirtækisins af útgáfu EVE Online og brautryðjendastarf þess á sviði sýndarveruleika hefur komið fyrirtækinu í fremstu röð á þessum vettvangi, og við viljum vera samstarfsaðilar þess í enn frekari landvinningum á þessu sviði,“ segir Harry Weller einn af stjórnendum NEA.
CCP var stofnað árið 1997 í Reykjavík. Með útgáfu á sínum fyrsta tölvuleik EVE Online árið 2003 ávann fyrirtækið sér sess sem eitt framsæknasta fyrirtæki tölvuleikjageirans og hefur fyrirtækið hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir leiki sína. Helstu hluthafar fyrirtækisins í dag eru Novator, General Catalyst og NEA.
NEA hefur lengi verið í fararbroddi í fjárfestingum á sviði hátækni og heilsugæslu. Innan tæknigeirans hefur sjóðurinn meðal annars fjárfest í fyrirtækjum á sviði hugbúnaðargerðar, orkumála og neytendalausna á netinu. Sjóðurinn var stofnaður árið 1977 og hefur fjárfest í um 650 fyrirtækjum í sex heimsálfum. Eignir hans eru metnar á rúmar 17 milljarða bandaríkjadala, eða sem nemur 2.400 milljörðum króna.