Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ólöf Nordal, varaformaður hans, eru bæði á lista yfir þá íslensku aðila sem tengjast aflandsfélögum, samkvæmt frétt vefmiðilsins Eyjunnar. Þar segir að nöfn nokkur hundruð Íslendinga sé finna á tveimur listum yfir nöfn þeirra sem átt hafa aflandsfélög eða bankareikninga í skattaskjólum. Margir þeirra séu þjóðþekktir.
Hópur sem samanstendur af fjölmiðlafyrirtækinu Reykjavík Media, alþjóðlegu rannsóknarblaðamennskusamtökunum ICIJ og ýmsum fjölmiðlum, meðal annars Kastljósi, er að vinna að fréttaröð um þá sem tilgreindir eru á öðrum listanum. Fyrr í dag var greint frá því á vef RÚV að þrír ráðherrar væru á meðal þeirra sem tengdust félögum skráðum í aflandsfélögum. Í nýrri frétt á vef RÚV hefur verið staðfest að tveir ráðherranna séu Bjarni og Ólöf. Þar kemur fram að Bjarni tengist félaginu Falson og Co, sem hann segist hafa talið að hafi verið skráð í Lúxemborg. Ólöf tengist félagi sem Landsbankinn stofnaði fyrir eiginmann hennar, Tómas Sigurðsson. Hún segir það aldrei hafa verið notað. Hvorugt félagið mun lengur vera til.
Forsætisráðherra einn þeirra
Í dag eru liðnar tæpar tvær vikur frá því að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, greindi frá því að hún ætti aflandsfélag sem héldi utan um miklar eignir hennar. Þær eignir nema um 1,2 milljarði króna og eru í stýringu hjá Credit Suisse bankanum. Skömmu síðar var einnig greint frá því að hún ætti kröfur í slitabú allra stóru bankanna sem féllu í október 2008. Þær kröfur eru til komnar vegna þess að Anna Sigurlaug keypti skuldabréf af bönkunum fyrir hrun. Heildarumfang þeirra er 523 milljónir króna og miðað við væntar endurheimtir úr búum bankanna má ætla að hún fái að minnsta kosti um 120 milljónir króna þegar kröfurnar verða að fullu greiddar út úr búunum.
Daginn eftir var upplýst að opinberun Önnu Sigurlaugar kom í kjölfar þess að Jóhannes Kr. Kristjánsson, sem rekur fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf., spurðist fyrir um aflandseignir forsætisráðherrahjónanna. Sú fyrirspurn var í tengslum við ofangreinda umfjöllun.