Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að leiða megi að því rök að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi orðið uppvís að landráðum. Hann telur að Sigmundur Davíð þurfi að víkja úr stól forsætisráðherra. Þjóðarleiðtogi sem er að semja fyrir hönd þjóðar sinnar og hefur sem einstaklingur hagsmuna að gæta með þeim sem hann er að semja við og gegn þjóðinni sé óhæfur til þess að sinna starfi sínu og því megi leiða rök að landráði. Þetta kemur fram í aðsendri grein eftir Kára sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Kári hefur farið mikinn undanfarna mánuði í skrifum á aðsendum greinum og hafa þær oftar en ekki snúist um forsætisráðherra.
Ástæða þessa er hið svokallaða Wintris-mál, sem snýst um að eiginkona forsætisráðherra átti miklar eignir í aflandsfélagi og 523 milljón króna kröfur í slitabú föllnu bankanna án þess að greina frá því. Um eignirnar og kröfurnar var ekki upplýst fyrr en fyrir tveimur vikum síðan, í kjölfar þess að hópur alþjóðlegra rannsóknarblaðamanna kom fyrirspurn um eignirnar á forsætisráðherrahjónin.
Í grein sinni sinni segir Kári að Sigmundur Davíð verði að stíga upp úr stól sínum og hefja þrautargöngu sem gæti endað „þar sem síst skyldi“. Ef hann verði ekki neyddur til að gera það af „lúðulökum og lufsum“ sem sitja á Alþingi þá er Kári viss um að forsætisráðherra muni gera það af fúsum og frjálsum vilja því hann sé góður drengur sem þyki vænt um þjóð sína.
Kári segir röksemdir til stuðnings máli sínu tvíþættar: Annars vegar hafi samningar við kröfuhafa föllnu bankanna einungis skilað 300 milljörðum króna þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hefðu í fyrra lofað allt að 850 milljörðum króna. „Og nú kemur í ljós, Sigmundur Davíð, að þú ert í hópi kröfuhafanna sem bera 550 milljörðum meira úr býtum en stefnt var að á síðasta vori. Það er með öllu óásættanlegt að þjóðin frétti nú að maðurinn sem leiddi ríkisstjórnina sem smíðaði í raun réttri samkomulagið við kröfuhafana sé einn af þeim. Það þýðir ekkert að segja að það sé konan þín en ekki þú sem eigi kröfurnar. Lögin um innherjaviðskipti setja sömu reglur fyrir maka í öllum tilfellum og allar reglur um hagsmunaárekstra gera ráð fyrir að hagsmunir maka leiði til sömu hagsmunaárekstra og þínir eigin. Það er ekki bara óásættanlegt að þú skulir hafa tekið þátt í samingunum heldur með öllu óskiljanlegt að þú skulir hafa haldið að það væri í lagi og haldir það enn þann dag í dag. Í því endurspeglast dómgreindar-skortur sem gæti endað í sögubókum. Þjóðarleiðtogi sem er að semja fyrir hönd þjóðar sinnar og hefur sem einstaklingur hagsmuna að gæta með þeim sem hann er að semja við og gegn þjóðinni er óhæfur til þess að sinna starfi sínu og ef hann heldur því leyndu má leiða að því rök að hann hafi orðið uppvís að landráðum. Skiptir þá litlu hvers eðlis hagsmunirnir eru sem um ræðir eða hvort hann græðir á hagsmunaárekstrinum eða tapar.“
Hins vegar segir Kári að kröfur í föllnu bankana hafi gengið kaupum og sölum og þær upplýsingar sem forsætisráðherra hafi haft í mögulegt framtíðarverðmæti þeirra hljóti að flokkast sem innherjaupplýsingar. „Sú staðreynd að þú bjóst að þessum upplýsingum á sama tíma og þú áttir kröfur í bankana og gast notað þær til þess að taka ákvarðanir um að selja eða ekki gerir þig sekan um innherjaviðskipti. Sú ákvörðun að selja ekki er engu léttvægari í þessu samhengi en sú að selja. Það er athyglisvert og óheppilegt fyrir orðstír þinn að það verð sem kröfuhafar fá fyrir sinn snúð núna er töluvert hærra en það sem lægst var borgað fyrir kröfurnar á markaði. Það þarf ekki að teygja sig langt til þess að heyra samhljóm milli þessa og vandræða Baldurs Guðlaugssonar, fyrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, sem seldi hlutabréf sín í Landsbankanum rétt fyrir hrun.“
Kári segir líklegt að það séu aðilar í pólitík og utan sem eru honum ósammála um þessi efni. Næsta víst sé þó að margir sjái þetta á sama hátt. „Þar af leiðandi kemurðu til með að hrekjast úr embætti að endingu þótt svo þú berjist gegn því með kjafti og klóm. Því ráðlegg ég þér að sýna auðmýkt og lítillæti og segja af þér til þess að koma í veg fyrir að þjóðin þurfi að eyða þeirri orku í enn eina innri baráttuna sem mætti annars nýta til uppbyggingar.“