Þrír íslenskir ráðherra og fleira áhrifafólk í íslenskum stjórnmálum eru á listum yfir eigendur aflandsfélaga í skattaskjólum. Þetta kemur fram í gögnum sem blaðamenn víðsvegar um heiminn hafa undir höndum og hafa unnið úr undanfarna mánuði. Opinberað verður um hverja sé að ræða í sérstökum Kastljósþætti sem fer í loftið á næstu dögum. RÚV greinir frá.
Þar segir að þátturinn sé unninn í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media, ICIJ Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung. „Þar verða birtar upplýsingar um umfangsmiklar eignir Íslendinga í félögum í skattaskjólum. Meðal annars ráðherra í ríkisstjórn Íslands og fjallað um þáttöku annars áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum í starfsemi aflandsfélaganna, sem til þessa hefur farið leynt."
Í frétt RÚV segir að upplýsingarnar spanni 25 ára tímabil. Nýjustu dæmin séu um einstaklinga sem hafi stofnað aflandsfélög á árinu 2014.
Í dag eru liðnar tæpar tvær vikur frá því að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, greindi frá því að hún ætti aflandsfélag sem héldi utan um miklar eignir hennar. Þær eignir nema um 1,2 milljarði króna og eru í stýringu hjá Credit Suisse bankanum. Skömmu síðar var einnig greint frá því að hún ætti kröfur í slitabú allra stóru bankanna sem féllu í október 2008. Þær kröfur eru til komnar vegna þess að Anna Sigurlaug keypti skuldabréf af bönkunum fyrir hrun. Heildarumfang þeirra er 523 milljónir króna og miðað við væntar endurheimtir úr búum bankanna má ætla að hún fái að minnsta kosti um 120 milljónir króna þegar kröfurnar verða að fullu greiddar út úr búunum.
Daginn eftir var upplýst að opinberun Önnu Sigurlaugar kom í kjölfar þess að Jóhannes Kr. Kristjánsson, sem rekur fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf., spurðist fyrir um aflandseignir forsætisráðherrahjónanna. Sú fyrirspurn var í tengslum við ofangreinda umfjöllun.