Í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir verkefnisstjórn 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, á landsvísu kemur fram að 60 prósent landsmanna eru andvíg því að virkja til að auka stóriðju á Íslandi en 15 prósent eru því fylgjandi.
Þá er 51 prósent landsmanna andvíg því að virkja og selja raforku til Evrópu um sæstreng, en 25 prósent eru því fylgjandi. Mun meira fylgi er hins vegar við að virkja til að efla aðra atvinnustarfsemi en stóriðju á Íslandi (74 prósent) og til að rafvæða bílaflota og almenningssamgöngur í landinu (81 prósent)
Þetta kemur fram í drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnunarinnar, sem birt var í dag.
Þegar spurt var í könnuninni á landsvísu hve sammála eða ósammála fólk sé því að gera eigi miðhálendið að þjóðgarði (sem er friðaður m.a. fyrir virkjunum) segjast 55% vera því sammála, (þar af 33% mjög sammála), en 23% eru ósammála. Jafnstór hópur tók ekki afstöðu. Marktækur munur var á viðhorfi karla og kvenna, þar sem yfir 60 prósent kvenna voru sammála á meðan 48 prósent karla voru sammála því að gera miðhálendið að þjóðgarði. Á milli 51-59 prósent í öllum aldurshópum voru sammála, en misjafnt hversu hátt hlutfall var ósammála eftir aldurshópum (mest andstaða hjá 60 ára og eldri og 30-44 ára, um fjórðungur í báðum hópum).
Samkvæmt þeirri tímaáætlun sem verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar vinnur eftir mun verkefnisstjórnin skila tillögu sinni til ráðherra hinn 1. september 2016, að því er segir í inngangi draganna. „Sú skýrsla sem hér lítur dagsins ljós hefur að geyma fyrstu drög að þessari tillögu, eða með öðrum orðum „drög að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina“, eins og það er orðað í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011. Þessi drög verða kynnt almenningi á kynningarfundum víða um land í apríl 2016, auk þess sem leitað verður umsagna um þau hjá viðeigandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum og hagsmunaaðilum.
Ætlunin er að þessu ferli verði lokið 20. apríl 2016. Að loknum kynningum og samráði samkvæmt framanskráðu mun verkefnisstjórn ganga frá tillögum sínum að verndar- og orkunýtingaráætlun og auglýsa þær með opinberum hætti. Í því ferli gefst öllum kostur á að koma athugasemdum á framfæri innan ákveðins frests. Þetta umsagnarferli hefst 11. maí 2016 og stendur í 12 vikur til og með 3. ágúst sama ár. Eftir það mun verkefnisstjórn ganga frá endanlegum tillögum sínum til ráðherra og afhenda þær 1. september eins og fram hefur komið,“ segir Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnarinnar.
Hér að neðan má sjá hvernig einstök svæði falla í flokka, eftir nýtingar-, bið-, og verndarflokki.