Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra seldi sambýliskonu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, 50 prósenta hlut sinn í Wintris árið 2009, 31. desember. Hann gerði aldrei grein fyrir þessum eignum í hagsmunaskráningu. Kaupverðið var einn dollari. Engar upplýsingar þurfti að gefa upp um félagið þar sem kaupin fóru fram fyrir áramótin, því ný lög tóku gildi 2010. Þetta kom fram í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur er nú á RÚV um umfangsmesta gagnaleka í sögunni. Elstu gögnin eru frá 1977 og nýjustu frá desember í fyrra. Meira en 11 milljónir skjala er að finna í gögnunum, sem koma frá einni valdamestu lögfræðistofu í Panama, Mossack Fonseca.
Sigmundur Davíð er þar á lista ásamt 11 öðrum þjóðarleiðtogum, til dæmis sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani, sem Íslendingar þekkja í tengslum við Al-Thani málið, og Pútín Rússlandsforseti.
Eins og greint hefur verið frá er Wintris skráð á Tortólu. Svo virðist sem öll skráning í kring um félagið sé á reiki, og bendir margt til að eignaskráningin sé dagsett aftur í tímann. Mikið er lagt á sig að fela eignahlutinn í Wintris og þarf maður að grafa töluvert til að finna hina raunverulegu eigendur, Önnu Sigurlaugu og Sigmund Davíð. Wintris átti kröfur í bú Glitnis. Sigmundur Davíð skráði aldrei tengsl sín við Wintris í hagsmunaskráningu á Alþingi og ekkert bendir til þess að eignarhaldið hafi verið rangt skráð.
Neitaði að hafa selt hlutinn á dollar
Sigmundur Davíð var spurður út í tengsl sín við Wintris í sjónvarpsviðtali við sænskan rannsóknarblaðamann, þann 11. mars síðastliðinn. Upphaflega byrjuðu þeir að ræða um kaup íslenska ríkisins á gögnum úr skattaskjólum og Sigmundur undristrikaði hversu mikilvægt það væri að byggja upp traust í samfélaginu og velta við öllum steinum. Þegar spurningarnar fóru að snúast um Wintris kom hik á Sigmund og hann neitaði að tjá sig um málið. Hann neitaði því í viðtalinu að hafa selt hlut sinn á einn dollara. Þetta endaði með því að Sigmundur gekk út úr viðtalinu.