Ritstjórarnir Þórður Snær Júlíusson og Þórunn Elísabet Bogadóttir spurðu sig hvort veðrið gæti lagt ríkisstjórnina að velli í Kvikunni á föstudag. Wintris-málið var krufið, farið yfir vangaveltur um hvað komi til með að gerast á mánudag þegar þing hefst að nýju og hvort mótmælin hafi áhrif. Í Kvikunni er einnig rætt um afléttingu á leynd á gögnum, innanlandsflug í Keflavík, Obama, hvort fíkniefnaneysla sé glæpur eða heilbrigðismál og söluna á Borgun.
Í Tæknivarpi helgarinnar fá þeir Gunnlaugur Reynir og Atli Stefán þau Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóra Domino's í Noregi, og Elísabetu K. Benónýsdóttur, kennsluráðgjafa í tölvu- og upplýsingatækni í Hofsstaðaskóla, í heimsókn. Þau ræddu notkun snjalltækja við kennslu og veltu fyrir sér hvort tækin muni leysa bækur af hólmi í náinni framtíð.
Freyr Eyjólfsson hitti Þorkel Heiðarsson náttúrufræðing og fór með hann Undir smásjánna. Þorkell hefur skoðanir á flestu og ræðir skattaskjól og sædýrasöfn – og sér meira að segja eitthvert samhengi þarna á milli.