Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála-og efnahagsráðherra, segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sé í þröngri stöðu og ríkisstjórnin um leið vegna opinberunar á eignum íslenskra ráðamanna í aflandsfélögum og málum sem því tengjast. Bjarni svarar því ekki hvort hann styðji forsætisráðherra til að sitja áfram. Það þurfi að setjast yfir það hvort ríkisstjórnin hafi nægjanlegan stuðning og hvort ríkisstjórnin treysti sér til að halda áfram, eftir atvikum eftir „ákveðnar ráðstafanir“. „Ég ætla ekkert að leyna því að það er það sem við erum að ræða. Hvort við höfum styrk til að halda áfram,“ sagði Bjarni. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um að slíta stjórnarsamstarfinu. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Þar sagði Bjarni að hann skilji að almenningur sé sleginn yfir meginefni Kastljósþáttarins sem sýndur var í gær, og fjallaði um eignir íslenskra ráðamanna í aflandsfélögum. Hann og Sigmundur Davíð hafi rætt saman einu sinni yfir helgina en ekkert í dag. Því er ljóst að Sigmundur Davíð ræddi ekki við Bjarna áður en að hann sagði að hann myndi ekki segja af sér í viðtali við Stöð 2 í hádeginu.
Bjarni segir að hann muni þurfa að setjast niður með Sigmundi Davíð og fara yfir stöðuna strax og hann kemur heim, en Bjarni er staddur í Bandaríkjunum eftir að hafa misst af flugi fyrr í dag. Að sögn Bjarna tekur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnin það alvarlega að fólk sé slegið og að undiraldan í þjóðfélaginu sé þung. „Við skynjum ágætlega umræðuna í þjóðfélaginu.“
Aðspurður um sína stöðu, en félag sem var að hluta til í eigu Bjarna, var einnig til umfjöllunar í þættinum, segir Bjarni að ekkert sé óskýrt um hans mál. Þeim viðskiptum sem félagið hafi verið stofnað utan um hafi lokið í nóvember 2008 og félagið verið sett í afskráningarferli eftir það. Hann geri sér engu að síður grein fyrir að tilvist þess kalli á skýringar.
Bjarni sagði erfitt að segja annað en að sú neikvæða umræða sem Ísland hefur orðið fyrir alþjóðlega sé skaðleg. Hún sé hins vegar enginn endir heldur aðstæður sem bregðast þurfi við.