Ríkisstjórnin hangir ekki aðeins á bláþræði, heldur virðist aðeins kraftaverk geta bjargað lífi hennar úr þessu, þrátt fyrir að forsætisráðherra sýni engan vilja til að víkja. Ástæðan er veik staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, eftir afhjúpun í Kastljósi RÚV í gær, þar sem félagið Wintris Inc. var í forgrunni en það er skráð á Tortóla, eins og marg hefur verið rakið að undanförnu. Samkvæmt heimildum Kjarnans er mikil og almenn óánægja innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins, með stöðu Sigmundar Davíðs, og ekki síst þann ímyndarskaða sem hann hefði valdið þjóðinni, með framgöngu sinni í þættinum í gær. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við mbl.is fyrr í dag að staða ríkisstjórnarinnar „væri mjög þung“.
Áhyggjur af stöðu mála
Á fundi þingmanna Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag voru svipuð sjónmið reifuð; staðan væri afleit og þá sérstaklega staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þá ræddu þingmenn Sjálfstæðismanna einnig um þær fréttir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði ákveði að flýta ferð sinn heim til Íslands. Í því fælust skilaboð, um að ríkisstjórnin væri fallvölt.
Þá væri fjarvera Bjarna Benediktssonar, sem missti af flugi til landsins, ekki góð þar sem staða mála væri viðkvæm.
Mál Sigmundar Davíðs er hluti af alþjóðlegri umfjöllun rannsóknarblaðamanna hjá Reykjavík Media og ICIJ samtökum rannsóknarblaðamanna um aflandsfélög og svonefnd Panamaskjöl, og hefur það fengið mikla og almenna athygli um alla heim í dag, einkum myndbandsbrot þar sem hann reynir að ljúga sig út úr aðstæðum þegar sænski rannsóknarblaðamaðurinn Sven Bergman spyr út í Wintris.
Heimskastljósið á Sigmundi Davíð
Nær allir helstu fjölmiðlar heimsins, þar á meðal breska ríkisútvarpið BBC, The Guardian og allir helstu fjölmiðlar Norðurlandanna, hafa fjallað um málefni Sigmundar Davíðs og þá staðreynd að hann og konan hans hafi geymt miklar eignir á Tortóla.Félagið var í sameiginlegri eigu Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar til 31. desember 2009, og lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna upp á samtals um 500 milljónir króna að nafnvirði.
Ólík sýn stjórnarflokkanna
Þingflokkur Framsóknarflokksins fundaði í morgun með Sigmundi Davíð, og var þar fjallað um þáttinn í gærkvöldi og þær upplýsingar sem þar komu fram. Sigmundur Davíð játaði í hádegisfréttatíma Stöðvar 2 að hafa staðið sig „ömurlega“ í viðtali við Sven en hann ætlaði að sitja áfram. Hann neitaði með öllu að ræða við RÚV um málið, sem fyrr.
Spennan áþreifanleg
Þess er nú beðið að Bjarni komi til landsins, og er stefnt að því að hann fundi með þingflokki Sjálfstæðisflokksins síðar í dag. Vafalítið mun hann eiga alvöruþrunginn fund með Sigmundi Davíð um stöðu mála einnig.
Þá gæti staðan skýrst innan Sjálfstæðisflokksins, en hún mun ráða úrslitum um það hvort ríkisstjórnarflokkarnir reyna til þrautar að halda áfram samstarfi, eða slíta samstarfinu og boða til kosninga innan skamms. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa lítið sagt um málið í dag, en Framsóknarmenn hafa þó gagnrýnt framgöngu RÚV eins og síðustu tvær vikur, og lét Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, hafa eftir sér orð um „leynigesti RÚV“, í viðtali við Einar Þorsteinsson fréttamann, án þess að skýra þau frekar. Hún gekk svo hröðum skrefum til fundar.
Sjálfstæðismenn hafa hins vegar lítið sem ekkert sagt um málið.
Sigmundur Davíð ítrekaði nú skömmu eftir fjögur, þegar hann tók til máls í þinginu, að hann hefði engar eignir átt í skattskjóli. Hann hefði ekkert rangt gert, og að erlendir fjölmiðlar hefðu, sumir hverjir – „þeim til hróss“ – tekið það fram að ekkert benti til lögbrota.