Hópur framsóknarmanna á Akureyri, stærsta þéttbýliskjarnanum í kjördæmi forsætisráðherra, Norðausturkjördæmi, skorar á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að segja af sér strax vegna trúnaðarbrests milli forsætisráðherra og flokksmanna. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, auk aðal- og varabæjarfulltrúa taka undir það og segja að ríkisstjórnin geti ekki starfað áfram undir forystu núverandi forsætisráðherra. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá flokksmönnum á Akureyri.
Undir yfirlýsinguna skrifa meðal annars bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar flokksins á Akureyri.
„Vegna þess trúnaðarbrests sem við teljum að skapast hafi milli forsætisráðherra og flokksmanna Framsóknarflokksins sem og landsmanna allra, skorum við á Sigmund Davíð Gunnlaugsson að segja sig frá störfum forsætisráðherra án frekari tafa.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri, Ingibjörg Ólöf Isaksen bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri, Siguróli M. Sigurðsson varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri, Tryggvi Már Ingvarsson varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri, Óskar Ingi Sigurðsson varaformaður umhverfisnefndar Akureyrarbæjar, Jóhannes Gunnar Bjarnason, Jakob Björnsson, Björn Snæbjörnsson, og Viðar Valdimarsson,“ segir í yfirlýsingunni, sem birtist meðal annars á Facebook síðu Tryggva Más Ingvarssonar, varabæjarfulltrúa.