Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur lýst yfir vantrausti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna þeirra upplýsinga sem hafa komið fram um eignarhald hans á félagi í skattaskjóli á Bresku Jómfrúareyjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þeim. Þar segir að forsætisráðherra hafi haldið upplýsingunum leyndum og sagt ósatt um þær. „Alvarleiki málsins er slíkur að honum er ekki sætt á stóli forsætisráðherra. Ekki kemur annað til greina en Sigmundur Davíð segi af sér embætti. Hann hefur nú þegar stórskaðað íslenska hagsmuni. Heimdallur mun ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar."
Fyrr í dag lýstu Ung Vinstri græn yfir að þau teldu að gjá hefði skapast á milli stjórnvalda og þjóðarinnar og því sé nauðsynlegt að boða til kosninga. „Ung vinstri græn fordæma hegðun stjórnvalda varðandi aflandsfélög ráðherra. Ríkisstjórnin telur að þjóðin hafi engan rétt á að fá upplýsingar um hvar hagsmunir ráðherra liggja eða hvers vegna þeir ákveða að geyma fjármuni sína í þekktum skattaskjólum en reyna þó að telja almenningi trú um að verðtryggða krónan sé öruggasti gjaldmiðill í heimi.
Trúnaðarbrestur hefur myndast milli þjóðar og stjórnvalda, forsætisráðherrann ákvað að engu skipti þó að hann hefði hagsmuna að gæta vegna eigna eiginkonu sinnar á Tortóla þó að í 3. grein stjórnsýslulaga komi fram að "Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls ef hann er eða hefur verið maki aðila" en forsætisráðherrann heldur að umræðan snúist einungis um að koma óorði á eiginkonu sína. Viðbrögð ráðherra hafa verið hrokafull og sýnt skilningsleysi á stöðu mála. Eftir Kastljósþátt gærdagsins er komið í ljós að ráðamenn þessa lands eru ekki hæfir til þess að sitja lengur. Ung vinstri græn telja að gjá hafi myndast milli stjórnvalda og þjóðarinnar og því sé nauðsynlegt að rjúfa þing og boða til kosninga. Sigmundur og Bjarni vinsamlegast skilið lyklunum".
Ungir jafnaðarmenn lýstu yfir vantrausti á forsætisráðherra og ríkisstjórn hans með yfirlýsingu sem send var út í gær. Þar sagði m.a.: „Viðbrögð Sigmundar Davíðs, forsætisráðherra Íslands, við þeim alvarlegu athugasemdum sem réttilega hafa verið gerðar við gjörðir hans upp á síðkastið, eru því miður dæmigerð fyrir stjórnarhætti hans. Allir sem setja fram efnislega og rökstudda gagnrýni eru tortryggðir og sagðir gera það í annarlegum tilgangi. Er það síst til þess fallið að byggja upp traust og virðingu Alþingis og íslenskra stjórnmála almennt, sem brýn nauðsyn hefur þó verið til allt frá hruni. Vanhæfur forsætisráðherra sem kemur fram af hroka og lætur sín eigin völd ætíð njóta vafans getur aldrei byggt upp traust á milli sín og þjóðar sinnar. Þetta einstaka mál og viðbrögð forsætisráðherrans er næg ástæða afsagnar."