Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það kunni að vera tímabært að eiginkona hans opni fyrir frekari upplýsingar um eignir og skattgreiðslur aflandsfélagsins Wintris, sem er í hennar eigu. Þetta kom fram í viðtali við hann í Íslandi í dag. Hann hefur ítrekað sagt að allir skattar og gjöld hafi verið greidd á Íslandi vegna þeirra eigna sem eru inni í félaginu, sem eru erlend verðbréf.
Sigmundur Davíð sagði varla til þá manneskju á Íslandi sem sjái meira eftir því að félagið Wintris, sem er með heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum, hafi verið stofnað utan um eignir eiginkonu hans, nema mögulega eiginkonan sjálf. Það sé sjálfsagt að biðjast afsökunar á því að til félagsins hafi verið stofnað með þessum hætti.
Í viðtalinu sagði forsætisráðherrann að hann hefði ekki alltaf verið sáttur við nálgun RÚV í málinu en að hann hafi ákveðið að brjóta ákveðið prinsipp í sinni pólitík með því að fara í viðtal við Fréttablaðið fyrir páska. Það prinsipp væri að tengja ekki málefni eiginkonu sinnar sínum stjórnmálum. Eftir á að hyggja hefði hann þó átt að svara fyrir Wintris-málið, sem varð opinberað 14. mars með stöðuuppfærslu eiginkonu forsætisráðherra á Facebook, fyrr en hann gerði. Sú opinberun átti sér stað í kjölfar þess að sænskur sjónvarpsmaður, í samstarfi við Reykjavík Media, spurði Sigmund Davíð út í félagið Wintris í sjónvarpsviðtali föstudaginn 11. mars. Sigmundur Davíð gekk út úr því viðtali.