Seðlabanki Íslands vissi ekki af tengslum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við félagið Wintris Inc. á Tortóla, sem var í helmingseigu hans til 31. desember 2009 og eftir það í eigu eiginkonu hans, en eins og fram hefur komið lýsti félagið um 500 milljóna króna kröfu í slitabú hinna föllnu banka.
Í formlegu svari við fyrirspurn Kjarnans, kemur fram að Seðlabankinn hafi fyrst fengið upplýsingar um málið á dögunum, þegar upplýst var um það, en ákveðnir starfsmenn Seðlabankans, sem höfðu aðgang að aðgangsstýrðu svæði, hafi mögulega séð nafn félagsins á skrá yfir kröfuhafa í slitabúin. Már Guðmundsson seðlabankastjóri vildi ekki tjá sig um málið, þegar leitað var eftir viðbrögðum hans.
Fyrirspurnin Kjarnans: Vissi Seðlabankinn af tengslum forsætisráðherra við Wintris, og síðan að félagið hefði lýst kröfu í bú föllnu bankanna? „Seðlabankinn vissi ekki af þessum tengslum sem spurt er um í fyrri hlutanum [í fyrirspurnni] fyrr en þau voru upplýst opinberlega nú nýverið. Hvað síðari lið spurningarinnar varðar þá höfðu nokkrir einstaklingar á fáeinum sviðum í bankanum aðgang að aðgangsstýrðu svæði þar sem gögn um kröfuhafaskrá búa föllnu bankanna voru vistuð og hafa því séð nafn umrædds félags ef það var á meðal annarra kröfuhafa,“ segir í svari Seðlabankans.
Seðlabankinn segir að ekki hafi verið vitneskja um þessi tengsl forsætisráðherra innan framkvæmdahóps um afnám hafta, og þá hjá fulltrúm seðlabankans þar, eða hjá einhverjum sem starfar hjá eða fyrir Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ). Áréttað var að ekkert hefði verið vitað um þessi tengsl í Seðlabankanum
Eins og greint var frá á vef Kjarnans á dögunum, er ekki tilgreint nákvæmlega í lögum og reglum hvernig innherjareglur eigi við um stjórnvöld. Samkvæmt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti ber stjórnvöldum sem fá reglulega innherjaupplýsingar í starfsemi sinni þó að fylgja reglum um meðferð innherjaupplýsingar eftir því sem við á. Stjórnvöld bera hins vegar sjálf ábyrgð á því að meta hvort eðli og umfang starfsemi þeirra gefi tilefni til þess að reglum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti skuli fylgt.
Þetta kom fram í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans um hæfi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra til að koma að ákvörðunum sem tengjast slitum föllnu bankanna í ljósi þess að eiginkona hans er kröfuhafi í bú þeirra.
Samkvæmt svarinu ráða ráðamenn því sjálfir hvort tilefni sé til þess að láta reglur um meðferð innherjaupplýsingar og viðskipti innherja gilda um þá.