Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist vona að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sjái sóma sinn í því að segja af sér áður en að þingfundur hefst í dag. Það sé gríðarleg ólga í samfélaginu eftir að forsætisráðherra hafi verið „afhjúpaður í Kastljósi í gær sem loddari og lygari með vænissýki á háu stigi.“
Sigmundur Davíð var aðalumfjöllunarefni sérstaks Kastljósþáttar um aflandsfélagaeign íslenskra stjórnmálamanna sem sýndur var í gær. Þar gekk hann meðal annars út úr viðtali við sænska sjónvarpsmann sænska ríkissjónvarpsins og Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóra Reykjavík Media, þegar hann var spurður út í aflandsfélagið Wintris. Fjórum dögum eftir að viðtalið var tekið opinberaði eiginkona Sigmundar Davíð að hún ætti erlent félag í stöðuuppfærslu á Facebook. Síðar kom í ljós að Wintris var einnig stór kröfuhafi í bú allra föllnu bankanna og að Sigmundur Davíð var sjálfur eigandi helmingshlutar í félaginu þegar þeir kröfum var lýst. Fjallar var um málið í tugum fjölmiðla út um allan heim í gær. Þeirra á meðal voru BBC, DR, NRK,SVT, The Guardian, Aftenposten, Le Monde og þýska stórblaðið Sueddeutsche Zeitung, sem leiddi umfjöllunina alþjóðlega.
Birgitta birti stöðuuppfærslu í morgun þar sem hún segir ábyrgð Sigmundar Davíðs vera mikla ef hann segi ekki af sér áður en þingfundur hefst í dag, en hann mun hefjast klukkan 15. Þar á Sigmundur Davíð að vera á meðal þeirra ráðherra sem svara óundirbúnum fyrirspurnum. Birgitta segir: „Það er gríðarleg ólga í samfélaginu eftir að hann var afhjúpaður í Kastljósi í gær sem loddari og lygari með vænissýki á háu stigi. Að það væri afhjúpað fyrir heimsbyggð alla með vandaðri umfjöllun allra helstu fjölmiðla heims setur allar kenningar Sigmundar og félaga hans í Framsóknarflokknum um að loftárásir fjölmiðla hér heima í annað ljós og meint píslavætti þeirra telst til háðungar um heim allan.
Lítið hefur heyrst frá þingmönnum Framsóknarflokksins eftir að umfjöllunin fór í loftið í gærkvöld og ekkert viðbragð hefur komið frá forsætisráðherra sjálfum. Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði við RÚV í gærkvöld að engar nýjar upplýsingar hefðu komið fram í þættinum en að framsetning þeirra upplýsinga sem þar voru settar fram hafi ekki látið málið líta vel út.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir það sama og Sigurður Ingi við Morgunblaðið í dag. Ekkert hafi efnislega komið margt nýtt fram í Kastljósþættinum. Hann reiknaði með að farið yfir málið á þingflokksfundi í dag.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur saman í hádeginu í dag til að ræða hæfi forsætisráðherra og aflandsfélög almennt.