Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ekki viljað biðjast afsökunar á þeim upplýsingum sem komið hafa fram vegna eignar hans og eiginkonu hans á félagi skráð til heimilis á aflandseyjunni Tortóla, sem tilheyrir Bresku Jómfrúareyjunum. „Hvorki ég né konan mín höfum átt eignir í skattaskjóli,“ sagði hann í svari við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag.
Sigmundur Davíð hefur ítrekað endurtekið fyrri málflutning um að
allir skattar hafi verið greiddir vegna félagsins og að félagið sé í eigu
eiginkonu hans. Þess vegna hafi honum ekki borið að skrá það í
hagsmunaskráningu þingmanna. Eiginkona hans hafi aldrei leynt þeim eignum sem eru inni í aflandsfélaginu Wintris og aldrei hagnast á því að geyma eignirnar þar.
Sigmundur Davíð hefur ekki svarað spurningum um afsögn eða afsökunarbeiðni með beinum hætti það sem af er fyrirspurnartíma Alþingis, þrátt fyrir að slíkar spurningar hafi verið margítrekað verið lagðar fram af þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Hann hefur heldur ekki svarað spurningum um hvort hann trúi því virkilega að svör hans séu þess eðlis að þau bæti þann skaða sem orðið hafi vegna alþjóðlegrar umfjöllunar um málefni hans.
Sigmundur Davíð segir að hann hafi ekki reynt að skýla sér á bakvið konu sína í þessu máli. Eftir á að hyggja hafi hins vegar verið óhjákvæmilegt að ræða fjármál hennar fyrr, þótt að hann hafi haft það sem meginstef að ræða ekki hennar málefni opinberlega og í tengslum við stjórnmálaþáttöku hans. Hann hefur ítrekað neitað því að Tortóla sé skattaskjól. Skilgreining á slíku sé hvort að viðkomandi land sé nýtt til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum. Það hafi hann aldrei gert.
Á lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að finna lista yfir þau lönd og svæði sem teljast lágskattasvæði. Til þess að komast á þann lista þarftekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar, sem um ræðir, að vera lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á félagið, sjóðinn eða stofnunina hefði hún verið heimilisföst á Íslandi.