Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki samþykkt að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, verði næsti forsætisráðherra Íslands. Hún segir ennfremur að sér þyki það persónulega ótækt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem steig til hliðar sem forsætisráðherra í gær, sitji áfram á þingi. Þessum skoðunum hafi hún komið á framfæri á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í gær. Það sé hins vegar lítið sem Sjálstæðisflokkurinn geti gert í þeirri ákvörðun hans. Þetta kom fram í Twitterfærslum Áslaugar Örnu í gærkvöldi.
XD hefur ekki samþykkt að SIJ verði forsætisráðherra.
— Aslaug Sigurbjornsd (@aslaugarna) April 5, 2016
Sigmundur Davíð lagði tillögu fyrir þingflokk sinn síðdegis í gær um að hann myndi stíga til hliðar sem forsætisráðherra og að Sigurður Ingi myndi taka við. Ástæðan er sú staða sem Sigmundur Davíð var kominn í eftir að fjölmiðlar út um allan heim sögðu fréttir af aflandseign forsætisráðherrans og birtu síendurtekið viðtal sem sænska ríkissjónvarpið og Reykjavík Media tóku við hann. Í viðtalinu segir Sigmundur Davíð ósatt um aðkomu sína að aflandsfélaginu Wintris og rýkur síðan út. Einn þingmaður Framsóknarflokksins var á móti tillögu Sigmundar Davíðs, sem ætlar að sitja áfram sem formaður flokksins og þingmaður. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að hann og Sigurður Ingi muni ræða saman næstu daga um myndun nýrrar ríkisstjórnar flokkanna. Ekki er útilokað að kosið verði fyrr en áætlað var, en kosningar eiga að fara fram í apríl á næsta ári.
Í gærkvöldi skapaðist raunar mikil óvissa um hvort Sigmundur Davíð hefði raunverulega vikið úr starfi. Í yfirlýsingu sem Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sendi á erlenda fjölmiðla sagði að Sigmundur Davíð hefði aðeins lagt til að Sigurður Ingi Jóhannsson tæki við forsætisráðuneytinu í „óákveðinn tíma.“ Hann hafi ekki sagt af sér og muni halda áfram sem formaður flokksins. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, sagði við RÚV að ekkert væri óljóst í þessari tilkynningu. Sigurður Ingi væri forsætisráðherra í ótilgreindan tíma, sem geti þýtt fram að næstu kosningum. Það að forsætisráðherra hafi ekki sagt af sér sé líka rétt, hann sé enn starfandi forsætisráðherra þangað til hann skili umboði sínu til forseta Íslands.