Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, segir að hann hafi ekki borið fram formlega tillögu um þingrof á fundi sínum með forseta Íslands fyrr í dag, líkt og skilja hefði mátt af ummælum forsetans að fundi loknum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu sem send var út rétt í þessu.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að Sigmundur Davíð hefði óskað eftir því við sig að hann veitti honum heimild til að rjúfa þing. Ólafur Ragnar sagðist ekki tilbúinn til að veita honum slíka heimild þar sem forsætisráðherra náði ekki að sannfæra forsetann um að Sjálfstæðisflokkurinn væri samþykkur slíku.
Ólafur Ragnar sagði það ekki við hæfi að forsetinn væri dreginn inn í þá atburðarrás sem hófst með einhliða yfirlýsingu Sigmundar Davíðs á Facebook í morgun um að hann væri tilbúinn í þingrof og kosningar með þeim hætti sem forsætisráðherra hafði lagt upp. Eftir að hafa rætt við Sigmund Davíð í síma í gær höfðu þeir ákveðið að hittast klukkan 13 í dag. Í morgun klukkan 11, eftir fund sinn með Bjarna Benediktssyni, hafi forsætisráðherra farið fram á að fundinum yrði flýtt. Ólafur Ragnar frestaði því fundi sínum með forseta kýpverska þingsins sem fyrirhugaður var og hitti Sigmund Davíð þess í stað. Þar var beiðni hans um að forseti veitti honum heimild til að rjúfa þing, annað hvort strax eða í náinni framtíð, yrði veitt. Því hafnaði Ólafur Ragnar.
Sigmundur Davíð hefur ákveðið að stíga til hliðar sem forsætisráðherra.