Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ríkisstjórnarsamstarfið hangi ekki á bláþræði. Hann segir að ekki standi til að halda ríkisstjórnarfund í dag, og að ímynd Íslands hafi ekki skaðast vegna umræðu síðustu daga. Þetta kom fram í viðtali við hann á Bylgjunni í morgun.
Sigmundur sagði jafnframt að það væru ekki ný tíðindi að framsóknarmenn á Akureyri væru gegn Sigmundi, sá hópur væri ekki stuðningsmenn hans. Hann sagði einnig að viðtal sem var sýnt í Kastljósi og í fjölmiðlum um allan heim síðustu daga hafi verið hannað til að rugla hann í ríminu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur talað á öðrum nótum. Hann kom til landsins snemma í morgun og mun byrja á að funda með Sigmundi Davíð vegna stöðu stjórnarsamstarfsins. Frá þessu greinir RÚV. Síðar í dag mun hann funda með þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kom líka til landsins í morgun. Í samtali við Vísi greindi hann frá því að hann muni funda með formönnum ríkisstjórnarflokkanna í dag. Staðan sem komin sé upp sé alvarleg og forseti þurfi að vera til staðar og standa sína pligt.