81 prósent landsmanna treysta Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fráfarandi forsætisráðherra, frekar eða mjög lítið. 60,6 prósent treysta Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, frekar eða mjög lítið. Einungis tíu prósent landsmanna treysta Sigmundi Davíð frekar eða mjög mikið og 21,7 prósent ber traust til Bjarna. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR um traust til forystufólks í stjórnmálum. Könnunin var gerð daganna 4. og 5. apríl og tekur því til atburða síðustu daga.
Þegar vantraust á Sigmund Davíð var síðast mælt, í apríl 2015, mældist það 63,2 prósent. Hann nýtur nánast einungis trausts hjá kjósendum Framsóknarflokks (77,8 prósent) og Sjálfstæðisflokks (23,1 prósent). Núll prósent kjósenda Samfylkingar og 0,5 prósent kjósenda Pírata treysta honum. Nær sömu sögu er að segja af Bjarna Benediktssyni. Sjálfstæðismenn treysta honum best (74.6 prósent) og Framsóknarmenn næst best (47,6 prósent). Traust til hans er vart mælanlegt hjá kjósendur stjórnarandstöðunnar.
Sá stjórnmálamaður sem nýtur mests trausts er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Alls segjast 59,2 prósent aðspurðra treysta henni en 21,2 prósent vantreysta henni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er sá forystumaður í stjórnmálum sem nýtur næst mest trausts, eða 54,5 prósent. Vantraust gagnvart honum er svipað og hjá Katrínu, eða 21,5 prósent. Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, mælist með 42,3 prósent traust en 26,6 prósent vantraust. Það kemur á óvart þar sem fylgi við Bjarta framtíð mælist ítrekað undir fimm prósentum í könnunum og hefur gert það mánuðum saman.
Traust til Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, er mælt í könnuninni, en flokkur hans mælist með 43 prósent fylgi í nýrri könnun miðla 365 sem birt var í morgun. 40 prósent aðspurða segjast treysta honum frekar eða mjög vel. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, kemur þar á eftir með 28,6 prósent traust en 44,3 prósent vantraust. Það eru umtalsvert betri tölur en formaður hans, Árni Páll Árnason, mælist með. Einungis 14,7 prósent treysta honum en vantraust á hann mælist 50,7 prósent.
Könnunin var gerð daganna 4. og 5. apríl. Svarfjöldi var 969 einstaklingar, 18 ára og eldri sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.