Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa komist að samkomulagi um að halda áfram samstarfi á grundvelli sömu verkaskiptingu og verið hefur. Flokkarnir halda því áfram sömu ráðuneytum. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, ræddu við fjölmiðlamenn að loknum fundum með þingflokkum sínum rétt í þessu. Bjarni sagði einnig að kosningum yrði flýtt og færu fram í haust. Stærsta málið sem framundan væri snéri að losun hafta og Bjarni sagði að það mál myndi koma fram á næstu vikum. Engar breytingar verða á ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins. Sigurður Ingi staðfesti að Lilja Alfreðsdóttir verði ráðherra að tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra. Hvaða ráðherraembætti hún muni gegna verður kynnt á morgun. Ekkert var rætt um nýjan málefnasamning.
Sigurður Ingi sagði það rangt að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði hafnað Ásmundi Einari Daðasyni, þingflokksformanni Framsóknar, sem ráðherra. Heimildir Kjarnans herma hins vegar að svo hafi verið og að að minnsta kosti tveir þingmenn Framsóknarflokksins hefðu sóst eftir ráðherrastólum, þau Höskuldur Þórhallsson og Vigdís Hauksdóttir.
Aðspurður um hvort flokkarnir treystu sér í kosningar sagði Bjarni að stjórnarandstaðan væri í rústi og að einn flokkur væri tímabundið með gott fylgi, flokkur sem rétt hafi skriðið inn á þing síðast. Þar átti hann við Pírata. Bjarni hafnaði því einnig að það væri upplausn í þjóðfélaginu. „Hér er vel rúmlegur meirihluti fyrir að styðja þessa ríkisstjórn," sagði Bjarni.Hann sagði að vantrausttillaga stjórnarandstöðunar verði felld.