Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, staðfesti rétt í þessu að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins, verði næsti forsætisráðherra. Hann sagði einnig líklegt að kosið yrði í haust. Höskuldur hélt að Sigurður Ingi hefði þegar rætt við fjölmiðlamenn og tilkynnt um þetta. Það hafði hann ekki gert. Höskuldur sagði einnig að hann hefði viljað fá skýrari svör frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins og fráfarandi forsætisráðherra, um hvort hann ætli að sitja áfram á þingi. Þá sagði hann einnig frá því að Lilja Alfreðsdóttir, sérfræðingur í Seðlabankanum, fyrrum verkefnastjóri í forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs og dóttir Alfreðs Þorsteinssonar, yrði verkefnastjóri í ráðuneytinu aftur.
Sigmundur Davíð ræddi einnig stuttlega við fréttamenn og sagði að næsti forsætisráðherra væri mjög traustur og góður maður og óskaði Íslendingum til hamingju með hann.
Samkvæmt heimildum Kjarnans stóð til að Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokks, yrði næsti sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra áður en að þingflokksfundur Framsóknarflokks hófst. Ekki var hins vegar eining um það innan þingflokksins og þótti sumum þingmönnum flokksins þeir eiga frekara tilkall til embættisins en hann. Heimildarmenn Kjarnans nefna þar sérstaklega Höskuld Þórhallsson, úr stærsta kjördæmi flokksins, og Vigdísi Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins í Reykjavík, sem áður hefur verið gengið framhjá. Ekki náðist sátt um hver yrði næsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eða aðra ráðherraskipan utan þess að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra, og var þeirri vinnu frestað þangað til á morgun.