Alls eru 78 prósent landsmanna hlynnt því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, segi af sér embætti. 60 prósent vilja að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segi einnig af sér embætti og 56 prósent vill að Ólöf Nordal innanríkisráðherra geri slíkt hið sama. Ljóst er að ástæðan fyrir þessari kröfu, og töpuðu trausti gagnvart ráðamönnum og helstu stjórnmálastofnunum landsins, liggur í þeim upplýsingum sem fram komu í Kastljósþætti á sunnudag. Nálægt átta af hverjum tíu landsmönnum fannst sú umfjöllun fagleg. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun lagði fyrir úrtak úr netpanel stofnunarinnar daganna 4. og 5. apríl. Svarendur voru 617.
Þar var einnig spurt um hvaða flokk úrtakið myndi kjósa. Samkvæmt niðurstöðunni myndu Píratar fá 39 prósent atkvæða. Stjórnarflokkarnir myndu tapa miklu fylgi þar sem tíu prósent segja að þeir myndu kjósa Framsóknarflokkinn en 19 prósent Sjálfstæðisflokksins. Fylgi Vinstri grænna hækkar umtalsvert á milli kannana og segjast 15 prósent aðspurða að þeir myndu kjósa flokkinn. Samfylkingin mælist hins vegar með einungis átta prósent fylgi, sem er langt undir kjörfylgi flokksins sem þó var arfaslakt í sögulegu samhengi. Níu prósent nefndu annan flokk eða framboð.
Félagsvísindastofnun spurði einnig hvort fólk styddi ríkisstjórnina eða ekki. niðurstaðan var afgerandi á meðal þeirra sem tóku afstöðu: 72 prósent sögðust ekki gera það en 28 prósent styðja hana.
Í könnuninni var einnig spurt um hvort fólk hefði horft á umfjöllun Kastljós um aflandsfélög tengd ráðamönnum síðastliðinn sunnudag. 64 prósent aðspurðra sögðu að þeir hefðu séð þáttinn allan og 19 prósent að þeir hefðu séð hann að hluta. Það þýðir að einungis 16 prósent sá ekki þáttinn. Yfirgnæfandi meirihluti aðspurðra, 78 prósent, sögðu að þeim hafi þótt umfjöllunin mjög eða frekar fagleg. Einungis 14 prósent sögðu að þeim hafi þótt hún ófagleg.
Félagsvísindastofnun spurði auk þess hvort umfjöllunin hefði dregið úr trausti á nokkrum ráðherrum eða stofnunum. 78 prósent sögðu að hún hefði dregið úr trausti sínu gagnvart Sigmundi Davíð, 67 prósent að hún hefði dregið úr trausti sínu á Bjarna Benediktssyni, 62 prósent treystu Ólöfu Nordal síður eftir þáttinn og 70 prósent misstu traust gagnvart ríkisstjórninni. Traust aðspurðra til Alþingis dróst saman hjá 63 prósent landsmanna og traust til stjórnmála almennt dróst saman um 67 prósent.